ÞAU SKORTI REISN OG DÓMGREIND
Það var sá ágæti Framsóknarmaður Guðni Ágústsson, sem sagði í
Blaðinu í dag, að það væri ekki nokkur vafi í sínum huga að
"Bush-stjórnin í Bandaríkjunum misnotaði góðan vilja okkar
þjóðar og setti okkur inn á lista yfir viljugar og staðfastar
þjóðir. Það er einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna sem þeir ættu að
biðjast afsökunar á."
Ég hef aldrei efast um að Guðni Ágústsson hafi verið ósáttur
við stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar við innrásina í Írak. Þess
vegna tekur hann því fegins hendi þegar Jón Sigurðsson, formaður
Framsóknarflokksins, reynir að rétta kúrsinn og viðurkennir að
ríkisstjórnin hafi ekki haft samráð við Alþingi eins og lög gera
ráð fyrir og að stuðningurinn hafi verið mistök.
Nálgun Guðna Ágústssonar er hins vegar röng í tvennum
skilningi. Í fyrsta lagi er rangt að skírskota til vilja
þjóðarinnar í því samhengi, sem Guðni gerir. Vilji hennar lá
alltaf ljós fyrir. Ítrekað sýndu skoðanakannanir að þjóðin var
andvíg árásarstríðinu. Það var því íslenska ríkisstjórnin sem
misnotaði íslensku þjóðina en ekki Bush. Í öðru lagi var það
íslenska ríkisstjórnin sem einhliða tók ákvörðun sína um að lufsast
með þeim Bush og Blair þrátt fyrir að þær upplýsingar, sem nú
liggja fyrir væru öllum sem vildu vita morgunljósar.
Hér vísa ég í frábæra grein Steinþórs
Heiðarssonar, hér á vefsíðunni. Þar segir á meðal
annars:
"Þau lokuðu eyrunum fyrir því sem Hans Blix, Scott Ritter og
aðrir sem höfðu lengi starfað við vopnaeftirlit í Írak, sögðu öllum
sem heyra vildu. Þau ákváðu að trúa Colin Powell sem laug svo miklu
frammi fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í þágu innrásar sem
þegar hafði verið ákveðin, að hann lét breiða tjald yfir hið fræga
málverk Picassos af fólskulegum loftárásum fasista á smábæinn
Guernica í Spánarstríðinu 1936-1939. Þau höfnuðu öllum rökum þeirra
sem sýndu fram á að árásarstríð gegn Írak væri brot á alþjóðalögum
og stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna en hömpuðu myndunum þar sem
módel á vegum Ahmed Chalabi keyrðu trukka með álrörum og fleiru
fram og aftur um eyðimörkina fyrir góða borgun.
Til að gera langa sögu stutta, lágu fyrir allar þær upplýsingar
sem þurfti til að taka rétta ákvörðun í þessu afdrifaríka máli,
bæði um stöðu mála í Írak og þau hagsmunasambönd sem sköpuðu
samstöðu innrásarríkjanna. Það sem íslensku ráðherrana - Davíð,
Halldór, Geir, Þorgerði, Valgerði og öll hin - skorti í raun og
veru var einfaldlega reisn til að taka sjálfstæða
ákvörðun og dómgreind til að skilja á milli
staðreynda og lyga."
HÉR er grein Steinþórs Heiðarssonar í heild sinni.