PYNTINGAR: ÞÖGN ER SAMA OG SAMÞYKKI

Í fréttum er því nú haldið fram að ríkisstjórnum í Evrópu hafi verið kunnugt um flutninga á föngum frá Bandaríkjun-
um til fangelsa víðs vegar um heim þar sem þeir hafa verið skipulega pyntaðir. Halldór, forsætisráðherra, neitar að hafa haft vitneskju um slíkt athæfi. Vel má vera að það sé rétt hjá honum, það er að segja að honum hafi verið ókunnugt um þá staðreynd að flugvélar sem notaðar hafa verið við fangaflutninga hafi farið um Ísland. Hitt er þó augljóst að Halldór Ásgrímsson og ríkisstjórnin öll, stundar afneitun af verstu sort. Öllum má nefnilega vera ljóst framferði Bandaríkjahers. Í máli og myndum hefur heimurinn getað fylgst með því hvernig meintir óvinir Bandaríkjanna hafa verið meðhöndlaðir, haldið í fangabúðum án dóms og laga, jafnvel árum saman, pyntaðir, niðurlægðir og kvaldir. Við höfum fylgst með því hvernig á sjöunda hundrað fanga hefur verið haldið án dóms og laga í Guantanamó herstöð Bandaríkjamanna á Kúbu, allt niður í 16 ára unglinga. Þessir fangar hafa verið pyntaðir af vísindalegri nákvæmni. Það hefur ekki þurft neina rannsóknarblaðamenn til að ná myndum af þessum mönnum. Það hefur verið auðsótt enda ofbeldið til sýnis, öðrum væntanlega til viðvörunar. Þannig haga kúgarar sér.
Um meðferðina á föngum í fangelsum í Írak og Afganistan þarf ekki að fjölyrða. Ofan á allt þetta höfum við fylgst með fréttum af mannránum bandarísku leyniþjónustunnar CIA í Evrópu. Ef ekki ætti í hlut voldugasta ríki heimsins hefði fyrir löngu komið til tals að slíta stjórnmálasambandi við það! Ekkert væri fjær íslensku ríkisstjórninni. Gagnvart Bandaríkjastjórn kann hún best við sig á hnjánum. Þegar ríkisstjórnin var knúin til þess að "mótmæla"  framferði Bandaríkjamanna í Guantanamó, vorið 2004 var það gert svo mildilega að ekki nokkur maður tók eftir því. Þetta hafa síðan verið kölluð mótmæli í kyrrþey.

Í stað þess að afneita staðreyndum um framferði Bandaríkjamanna á ríkisstjórn Íslands nú að hafa manndóm í sér til að mótmæla harðlega grimmdarverkum þeirra. Og að sjálfsögðu á íslenska ríkisstjórnin að láta bandarísk yfirvöld vita að flugvélar sem flytja fanga Bandaríkjamanna í erlend pyntingarfangelsi megi ekki undir nokkrum kringumstæðum koma í íslenska lofthelgi, hvað þá lenda hér á landi. Ef við ekki krefjum Bandaríkjastjórn svara og formlegra skýringa og mótmælum harðlega grimmdarverkum þeirra og mannréttindabrotum þá eru Íslendingar í reynd samsekir - ekki síst fyrir þá sök að Ísland er svokölluð bandalagsþjóð Bandaríkjanna í Nató. Það er staðreynd sem menn verða að horfast í augu við: Þögn er því sama og samþykki.

Fréttabréf