GATS SAMNINGARNIR VERÐI STÖÐVAÐIR
Birtist í Morgunblaðinu 10.12.05.
Þegar viðskiptaráðherrar heimsins undirrituðu stofnsáttmála
Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, World Trade Organisation, WTO, í
apríl 1994 voru uppi heitstrengingar um aðgerðir til að bæta
atvinnuástand og lífskjör um heim allan. Markaðsvæðing, afnám
tollahindrana og í kjölfarið aukin verslun og viðskipti innan
einstakra ríkja og þeirra í milli átti að tryggja framfarirnar.
Þungamiðjan í þessum samningum er GATS, Genaral Agreement of Trade
in Services, Almennt samkomulag um verslun með viðskipti. Samhliða
þessum samningum eru síðan samningar um landbúnaðarvörur og
almennan iðnvarning. Á öllum þessum sviðum gengur starf WTO út á að
ryðja "viðskiptahindrunum" úr vegi og opna fyrir einkavæðingu í
rekstri ríkis og sveitarfélaga. En hvernig hefur tekist til á
þessum árum síðan WTO var stofnað?
Aðhaldi og lýðræðislegum vinnubrögðum hafnað
Á þeim rúmu tíu árum, sem liðin eru frá undirritun stofnsáttmálans, hefur gengið á ýmsu. Framan af var reynt að halda GATS samningaviðræðum í kyrrþey en smám saman tóku verkalýðshreyfing, ýmis almannasamtök og vakandi og gagnrýnin stjórnmálaöfl að beina sjónum sínum að samningaviðræðunum. Innan WTO vissu menn sem var að markaðsvæðing velferðarþjónustu sem þarna er ofarlega á baugi fellur ekki í kramið hjá almenningi og þess vegna var ákveðið að reyna að nota gamalkunnugt ráð og láta almenning standa frammi fyrir gerðum hlut. Samtök launafólks hafa barist fyrir því að viðræður á vegum stofnunarinnar fari fram fyrir opnum tjöldum. Árið 2003 settu PSI, Public Services International, Samtök launafólks í almannaþjónustu, fram þá hugmynd, að komið yrði á fót eins konar þingi fulltrúa alþjóðaverkalýðshreyfingar og ýmissa almannasamtaka sem starfaði jafnhliða fundum WTO til að stuðla að lýðræðislegri umræðu og veita stofnuninni aðhald. Þessu var illa tekið. Svo forstokkuð hefur stofnunin verið að hún hefur meinað fulltrúum verkalýðshreyfingar og annarra almannasamtaka að fylgjast með fundum sínum nema í mjög takmörkuðum mæli.
Málstaðurinn þolir ekki dagsljósið
GATS ferlið byggir á grundvallarsamningi sem stefnir að markaðsvæðingu á öllum sviðum efnahagsstarfseminnar. Öll ríki undirgangast ákveðnar grundvallarkvaðir, en einstök ríki geta hins vegar gengið mislangt í að skuldbinda sig til að markaðsvæða tiltekna geira efnahagslífsins. Í yfirstandandi samningalotu hafa ríki reist kröfur hvert á annað en slíkar kröfugerðir fara leynt. BSRB fékk á sínum tíma neitun frá úrskurðarnefnd upplýsingamála um aðgang að kröfugerðum erlendra ríkja á hendur okkur. Í kjölfarið var því fengið framgengt að kröfurnar eru birtar á upplýsingavef utanríkisráðuneytisins en ekki sundurgreindar. Erlendis hafa samtök á borð við BSRB verið að reyna að skyggnast á bak við tjöldin en með misjöfnum árangri, bæði um kröfur síns heimalands á hendur öðrum og einnig varðandi kröfur sem reistar eru á hendur heimalandinu. Getur það verið góður málstaður sem ekki þolir dagsljósið?
Vöxtur án atvinnusköpunar
En hvernig skyldi hafa tekist til? Samningar um landbúnaðarmál
hafa verið á forsendum fjölþjóðlegra auðfyrirtækja á kostnað
þróunarríkja. Sama á við um vöruviðskipti. Öflugustu iðnríkin hafa
heimtað ótakmarkaðan aðgang að fátækum og illa þróuðum
framleiðslumörkuðum sem í kjölfarið hafa hrunið; bændur flosnað
upp, smábátasjómenn hörfað fyrir stórvirkum togurum iðnríkjanna,
smáframleiðendur orðið gjaldþrota í samkeppni við stórvirkar
framleiðsluvélar iðnríkjanna. Afleiðingarnar eru þannig ekki aukin
velsæld heldur hið gagnstæða, fjöldaatvinnuleysi og aukin
örbirgð.
Í yfirlýsingu sem mörg kröftugustu verkalýðssamtök og almannasamtök
í heiminum hafa undirritað segir m.a.: "sú kennisetning að
verslun leiði til vaxtar sem síðan leiði til frekari þróunar hefur
hreinlega ekki gengið upp… Aukin verslun getur við vissar aðstæður
vissulega leitt til vaxtar. En við verðum alltaf að spyrja, hvers
konar vaxtar; vaxtar hjá hverjum? Nú verðum við, mjög víða um
heiminn, vitni að vexti án atvinnusköpunar. Verslun og hagvöxtur
eru oft innihaldslausar upplýsingar um velferð í þjóðfélagi þótt
þær geti verið mælistika á velgengni fyrirtækja. Það sem endanlega
skiptir máli er hvers konar verðmætasköpun á sér stað…Verði gerð
alvara úr því að markaðsvæða landbúnaðarframleiðsu enn frekar á
sömu forsendum og áður og að hið sama verði látið gilda um aðra
framleiðslu og þjónustustarfsemi, þá mun það leiða til stóraukins
atvinnuleysis og kjararýrnunar hjá stórum hópum bæði í
þróunarríkjum og einnig þróuðum ríkjum..."
Heimssamtök launafólks vilja tímabundið stopp á GATS
Af þessum sökum er nú sett fram tvíþætt krafa af hálfu fjölda
verkalýðsfélaga og heimssambanda þeirra, þar á meðal BSRB og
PSI.
Í fyrsta lagi verði öllum frekari viðræðum á vettvangi WTO frestað
og reynt að ná víðtæku samkomulagi við verkalýðshreyfingu og
almannasamtök um nýjar samningsforsendur. Í öðru lagi verði
framkvæmt mat á félagslegum, umhverfislegum og menningarlegum
afleiðingum þess regluverks í alþjóðaviðskiptum sem hannað hefur
verið af fjölþjóðastofnunum á borð við WTO og ríkisstjórnir hafa
undirgengist.
Verkalýðsfélög um heim allan hafa sammælst um að koma þessum kröfum
á framfæri í dag. Það þótti við hæfi að velja 10. desember,
Mannréttindadaginn, til að vekja athygli á þeim. BSRB hefur
tvívegis á árinu vakið athygli á hvíta bandinu sem svo er nefnt en
það bera margir nú um úlnliðinn til að minna á þörfina á því að
brúa bilið á milli ríkra og snauðra í heiminum. Stöðvun GATS
samninganna væri liður í þeirri viðleitni.