BARÓNESSA ÚTI Á ÞEKJU
Að mörgu leyti var gaman af viðtali Kristjáns Kristjánssonar við Valerie Amos, barónessu af Brondesbury, í Kastljósi Sjónvarps í kvöld. Mér skilst að barónessan hafi verið hér á landi í boði forseta Íslands. Hún á sæti á í Lávarðadeild breska þingsins, tilnefnd þangað af Tony Blair, að því er ég best veit.
Í umræddu Kastljósviðtali sýndi Valerie Amos,
barónessa, fram á ýmsar víddir í breskum stjórnmálum. Það var
áhugavert og fórst Kristjáni vel úr hendi að ræða við hana. Mér
sýndist hann hins vegar verða hálf miður sín undir lokin á
viðtalinu þegar viðmælandi hans fór að fabúlera um Íraksstríðið því
þar stóð ekki steinn yfir steini. Kristján lét á sér finna að ekki
væri hann sáttur en barónessan hélt sínu striki, talaði sig meira
að segja upp í talsverðan hita og hélt því fram að engar deilur
hefðu verið um það í aðdraganda innrásarinnar í Írak að þar í landi
væri að finna gereyðingarvopn. Spurningin hefði snúist um það eitt
hvernig ætti að bregðast við. Síðan hefði náðst samstaða í
Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir!
Mér er spurn, hvers konar rugl er þetta? Hans Blix og félagar sem
önnuðust leit að gereyðingarvopnum fundu engin slík vopn, sögðu það
skýrt og skorinort og mæltust til þess að þeir fengju rýmri tíma
til leitar og að ekkert yrði aðhafst að svo stöddu.
Síðan klofnaði Öryggisráðið í afstöðu til málsins en Bandaríkjamenn
og Bretar fóru sínu fram. Getur verið að þetta hafi ekki skilað sér
inn í Lávarðadeild breska þingsins? Ég þóttist vita að
Lávarðadeildin breska væri nokkuð lokuð deild en hafði hins vegar
ekki gert mér grein fyrir að þangað heyrðist ekkert inn. Nema þetta
sé eins og á sumum öðrum bæjum að menn heyri aðeins það sem þeir
vilja heyra.