Þegar hugsað er í árþúsundum

Sem betur fer er fjöldi erlendra fréttamanna í Írak sem færa okkur fréttir af framferði innrásarherjanna.  Auðvitað er alvarlegast hvernig fólk hefur verið myrt, raforkuverin eyðilögð, vatnsbólin að sama skapi, landið stráð sprengjum sem bíða þess að fætur stigi á þær til að valda limlestingu og eyðileggingu, krabbameinsvaldandi efnum dreift um stór svæði með sprengiregni, sem á eftir að drepa og afskræma um langt árabil. Allt þetta eru stríðsglæpir sem aldrei verða fyrirgefnir, því menn vita hvað þeir eru að gera; þetta er gert að yfirveguðu ráði.

En þegar hugsað er í árþúsundum munu menn minnast þess hve frumstæðir innrásarheririnir eru og þá kannski fyrst og fremst þeir sem stýra þeim og styðja þá. Það er ekki svo gott að þeir láti óátalið að múgur eyðileggi menningarminjar. Þeir beinlínis stuðla að eyðileggingunni, hvetja til hennar. Undir þeirra handarjaðri eru dýrmætustu söguminjar fornmennnigarinnar eyðilagðar. Það gerist undir velviljuðum byssukjöftunum. Ég sé þá fyrir mér verðina, tyggja Wrigleys tyggigúmmíið, á meðan sagnfræðiritin eru brennd. Í grein í danska blaðinu Information er enn ein greinin um hvað er að gerast. Þar er vísað í  Khaled Bayomi, egypsk-sænskan sérfræðing í í nútíma arabískri sögu við háskólann í Lundi í Svíþjóð. Hann segir reynslusögu sína frá Bagdad. Vefslóðin inn á þessa grein fylgir hér á eftir. En ég spyr enn og aftur, hvernig stendur á því að fréttamenn okkar spyrja ekki fulltrúa ríkisstjórnarinnar út í þá glæpi sem þarna eru framdir og þá einnig menningarglæpina. Utanríkis- og forsætisráðherra Íslands hamra á því að þeir styðji árásirnar, en eru engin takmörk fyrir stuðningnum? Þykir fréttamönnum ekki viðeigandi að spyrja? Í Ameríku eru menn farnir að gera grín að okkur, þessari vopnlausu þjóð sem styður hernaðinn úr öruggri  fjarlægð!! Það er erfitt að taka þessu ameríska skensi en ennþá erfiðara er að viðurkenna að innistæða er fyrir hinni nöpru gangrýni. Þegar allt kemur til alls gefa fulltrúar okkar á alþjóðavettvangi fullt tilefni til gagnrýni og háðsyrða. Því miður. Framgöngu Íslands á alþjóðavettvangi og þar með áherslum okkar í utanríkismálum verður að breyta og það getum við gert með atkvæði okkar í komandi kosningum. Hér kemur slóðin á fyrrnefna blaðagerein í Information: http://www.information.dk/Indgang/VisArtikel.dna?pArtNo=143727 

Fréttabréf