YFIRBORÐSKENND SAGNFRÆÐI UM SKULDAMÁL

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins svo og sumir þingmenn dásama mjög nefndarálit Péturs H. Blöndals, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann gagnrýnir áform um skuldaniðurfærslu.
Pétur H. Blöndal segir að enginn forsendubrestur hafi orðið í
kjölfar hrunsins og því þurfi ekkert að leiðrétta: "Í janúar
2009 nam 12 mánaða verðbólga 18,6% en þá var toppi náð. Verðtryggð
lán hækkuðu á þessum tíma um sama hlutfall. Í kjölfarið fóru margir
að tala um forsendubrest þar sem skuldarar hefðu ekki mátt búast
við svo mikilli verðbólgu. Á þessum tíma voru samt aðeins sex ár
frá því að 12 mánaða verðbólga náði 9,4% (1. janúar 2002). Í heilan
áratug, 1975-1984, fór 12 mánaða verðbólga ekki undir 30%. Í ljósi
sögunnar er því undarlegt að tala um forsendubrest."
Hinn hægri sinnaði vefmiðill Andríki
tekur undir hvað forsendubrestinn áhrærir: "Það er
mjög hæpið hjá stuðningsmönnum tillagnanna að orðið hafi almennur
forsendubrestur lántaka." (sjá nánar: http://andriki.is/post/85734580814
)
Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins segir
eftirfarandi í leiðara sem heitir
Þingmaður afhjúpar bullið:
"Pétur bendir í fyrsta lagi á að það þurfi ekki að
leiðrétta neitt; hvergi hafi verið skakkt reiknað. Það eigi
einfaldlega að "lækka höfuðstól tiltekinna verðtryggðra
fasteignalána einstaklinga án þess að í því felist einhver
leiðrétting".
Í öðru lagi hrekur þingmaðurinn þá fullyrðingu að orðið hafi
einhver sérstakur forsendubrestur sem þurfi að bæta upp með
peningum úr ríkissjóði. Í janúar 2009 hafi ársverðbólgan verið 18,6
prósent og verðtryggð lán hafi hækkað um sama hlutfall. Þá hafi
hins vegar aðeins verið sjö ár frá því að verðbólgan var 9,4
prósent. Enginn talaði þá í alvöru um skuldaleiðréttingu."
Allt þykja mér þetta undarlegar söguskýringar því inn í þær
skortir mikilvægustu þættina, það er þróun launa og lífskjara
almennt. Það er vissulega hárrétt að áttundi áratugurinn var mikill
verðbólguáratugur og sömuleiðis sá níundi. Verðbólgan frá 1974 til
´79 var að jafnaði yfir 40% og á fyrstu árum áttunda
áratugarins var hún vel rúm 60%. Mest varð hún 1983 þegar hún fór
yfir 100% um skeið.
En þarna skipti sköpum fyrir lántakendur að á áttunda
áratugnum (og reyndar frá því um miðjan sjöunda áratuginn) voru
launin verðtryggð! Þess vegna er þessi samanburður algerlega út í
hött! Í júní mánuði 1983 þegar Sjálfstæðisflokkur og
Framsóknarflokkur mynduðu ríkisstjórn var það fyrsta verk þeirrar
stjórnar,illu heilli, að taka launavísitöluna úr sambandi en láta
lánskjarvísitöluna óhreyfða (en henni hafði verið komið á með
svokölluðum Ólafslögum árið 1979.) Þar með skapaðist gríðarlegt
misgengi launa og lána sem er svo aftur sambærilegt við það sem
gerðist í kjölfar hrunsins þótt fyrra misgengið hafi verið sýnu
verra en hið síðara. Í hrun-misgenginu gekk hins vegar svo margt
annað úr skorðum að vandi fólks var um margt sambærilegur. Þannig
misstu margir vinnu sína aðrir urðu fyrir kjaraskerðingum. Þá er að
sjálfsögðu ein breytan enn þróun fasteignaverðs þótt hún taki ekki
til þess fólks sem komið er í það húsnæði sem það ætlar dvelja í
til frambúðar.
Þeir sem urðu fyrir búsifjum á áttunda áratugnum og fram að
Ólafslögum voru náttúrlega sparifjáreigendur en fé þeirra brann upp
með ógnarhraða á þessum árum. Þess vegna voru Ólafslögin sett en
allar götur síðan hafa menn rætt hvernig hægt sé að stuðla að
jafnvægi á milli allra fyrrnefndra þátta.
Ólafur Fréttablaðsritstjóri gerist skáldlegur í skrifum sínum í dag
um hinn ímyndaða forsendubrest og segir m.a.: "Rétt
þegar skrúðganga skuldaleiðréttingarinnar svokölluðu ætlar að fara
að leggja af stað úr þinghúsinu stillir Pétur H. Blöndal, þingmaður
Sjálfstæðisflokksins, sér upp í hlutverki barnsins sem lýsir því
yfir að keisarinn sé ekki í neinum fötum."
Sjálfur virðist mér Ólafur ekki ýkja klæðamikill.