DÉJA VU

Bjössi Bjarna - Kalda stríðiðWikipeadia er skemmtilegt fyrirbæri - eins konar alfræðiorðabók. Ég fletti að gamni mínu upp á hugtakinu déja Vu. Útlistun á hugtakinu hófst á þessum orðum:

"Hugtakið déjà vu ... þýðir "séð áður/þegar séð") er notað til að lýsa þeirri upplifun að hafa orðið fyrir atburði áður eða séð stað áður ... Hér er um nokkuð flókið fyrirbæri að ræða og margar mismunandi kenningar hafa verið settar fram til að skýra hvers vegna við upplifum déjà vu..."

Hvers vegna skyldi ég hafa flett þessu upp? Hugtakið déjà vu þekki ég ágætlega og tel mig skilja það sæmilega. En ástæðan var sú að ég hafði orðið fyrir hughrifum sem voru svo sterk déjà vu-tilfinning, að ég hreinlega varð að fletta upp hugtakinu þó ekki væri nema til að njóta stundarinnar.

Sá sem veitti mér þessa innsýn í gamlan tíma - tilfinningu fyrir að endur upplifa það sem liðið er - var Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins. Á sínum tíma höfðu gárungarnir á orði að svo haldinn hefði Björn verið af Kalda stríðinu að á hverjum morgni hefði hann talið sig sjá sovéska kafbáta í Skerjafirðinum á leið sinni til vinnu. Ekki þori ég að fullyrða neitt um þetta. En hitt veit ég að Björn var á NATÓ fundi í Brussel fyrir fáeinum dögum hjá sinni uppáhaldsstofnum. Þetta vitum við því Björn Bjarnason upplýsir þetta sjálfur  á heimasíðu sinni.

En hann segir okkur meira og þar kemur skýring á déjà vu tilfinningu minni. Hann fjallar nefnilega um mig og þá tillögu mína í síðustu ríkisstjórn um að draga úr kostnaði skattborgarans við rekstur á úreltum hernaðarmannvirkjum NATÓ hér á landi með það fyrir augum að hlífa viðkvæmri velferðarþjónustu.

Þessar tillögur mínar náðu ekki fram að ganga en sjá hvernig Björn Bjarnason færir hugrenningar sínar til dagbókar:

    "Einkennilegt er að enginn sem fjallað hefur um bók Össurar Skarphéðinssonar hefur minnst á deilurnar um NATO í Jóhönnu-stjórninni. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vildi spara 500 milljónir kr. með því að hætta allri NATO-tengdri starfsemi á vegum innanríkisráðuneytisins. Össur hafði  betur í þeirri rimmu við ríkisstjórnarborðið.
Ögmundur skýrði aldrei frá þessari sparnaðartillögu sinni opinberlega og hún hefur legið í þagnargildi fram að útgáfu bókar Össurar. Allir sem er annt um öryggi Íslands sjá að tillaga Ögmundar var flutt af pólitískri skemmdarfýsn. Samþykkt hennar hefði stórskaðað hagsmuni Íslands og gert þjóðina endanlega marklausa í öllum umræðum um öryggismál."

Mikið kannast ég við þennan tón! Engin tilraun til málefnalegrar umræðu um notagildi umræddra mannvirkja og gildi þeirra fyrir öryggi Íslands. Aðeins fordæmingar og svívirðingar: Ásakanir um skemmdarfýsn!

Svona var Kalda stríðið.

Fréttabréf