Fara í efni

MARGT ER SKRÝTIÐ Í KÝRHAUSNUM

OGM III
OGM III

Steingrímur J. Sigfússon segir í nýútkominni endurminningabók sinni að sér hefði komið það mjög á óvart að ég skyldi segja af mér embætti vegna Icesave-málsins 30. september árið 2009 og að hann hefði  reynt að koma í veg fyrir afsögn mína og einnig að fallist yrði á hana. En hvorki mér né öðrum hefði verið haggað.

Sér hefði brugðið í brún þegar Fréttablaðið birti flennifyrirsögn á forsíðu þennan dag þar sem haft var eftir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að ef ríkisstjórnin gengi ekki í takt í Icesave-málinu myndi haldið til Bessastaða til að tilkynna forsetanum að stjórnin færi frá.

Varla hefði þetta átt að koma fjármálaráðherranum, formanni VG, á óvart eftir fundina sem þau Jóhanna höfðu þá haldið með mér í Stjórnarráðinu þar sem mér var tilkynnt nákvæmlega þetta: Að Ísland væri í þann veginn að komast í algert þrot og að óeining innan ríkisstjórnarinnar um Icesave stefndi Íslandi í stórkostlega hættu. Ef ég ekki yrði samstiga þeim væri stjórnarsamstarfinu sjálfhætt. Jóhanna hafði orð fyrir þeim. Steingrímur dró upp sviðsmyndir.

Ég sagði að ljóst  væri af þessu að ýmsir yrðu nú að íhuga stöðu sína, og þá greinilega heilbrigðissráðherrann sem ekki gæti fellt sig við afstöðu þeirra í Icesave.
Síðan kom forsíðufréttin.

Þessi frétt og síðan afsögn mín kom án efa mörgum á óvart en varla þeim sem voru beinir þátttakendur í þessum samtölum. Það þætti mér meira en lítið skrýtið. En þá er þess að minnast, að margt er skrýtið í kýrhausnum.