HAGRÆÐINGARNEFND: STARFSEMI EÐA STOFNUN?

hornin blásin

Opinber starfsemi hefur tekið stórstígum framförum á undanförnum áratugum. Á nánast öllum sviðum hafa orðið framfarir, í tækni og vinnubrögðum sem leitt hafa til þess að störf sem innt eru af hendi verða markvissari  - þó ekki alltaf ódýrari. Þannig bjóða læknavísindin upp á sífellt fleiri möguleika sem iðulega kosta peninga, þótt tæknin hafi einnig leitt til sparnaðar og í allflestum tilvikum til betra lífs. Dæmi um aukinn tilkostnað eru dýr tæki og dýr lyf en á móti kemur að sjúklingar losna iðulega við líkamlegt inngrip með miklum skurðaðgerðum og eru fyrir bragðið fyrr að ná sér. Það sparar.

Starfsemi hjá hinu opinbera er komið fyrir í stofnunum, stórum og smáum. Stofnanakerfið þarf að vera undir stöðugri smásjá og aðlögun að breyttum aðstæðum. Stofnanakerfið þarf líka að geta lagað sig að breyttri hugsun, nýrri markmiðssetningu. Þannig var gerður uppskurður á stofnanakerfi samgöngumála á síðasta kjörtímabili. Í stað þess að horfa sértækt á flugið, vegina og sjóinn var allt þetta sett undir sama þak, samgöngur. Þegar til lengri tíma tel ég að þetta verði til góðs.

Fleiri breytingar hafa verið í farvatninu á undanförnum árum og ber þar hæst fækkun lögreglu- og sýslumannsembætta. Þegar til lengra tíma er litið hefur þróunin verið í þessa átt og flestir um það sammála að fækka embættum en efla jafnframt þá þjónustu sem þau veita. Mörgum fannst tímaramminn strammur og lengdi ég heldur í tímanmörkum við komu mína í ráðuneytið og setti þau við 1. janúar 2015. Um þetta skapaðist víðtæk sátt við samtök þess fólks sem málið snertir.
Nú er hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar búinn að senda frá sér tillögur. Þar er að finna marga gamla kunningja, svo sem tillögur um fækkun fyrrgreindra embætta. Þarna eru líka fleiri tillögur, sumar þekki ég, aðrar ekki. En allar eiga þær það sammerkt að vera kynntar með miklum lúðrablæstri. Fjármálaráðherra segir að með framkvæmd tillagnanna megi spara tugi milljarða! Jafnframt er óskað eftir málefnalegri umræðu um þær. Þeirri áskorðun skal ég fyrir mitt leyti gjarnan verða við. En þá er mælst til eins á móti: Að raunverulega verði efnt til málefnalegrar umræðu um bæði starfsemi og umgjörð hennar. Það gerir þessari umræðu ekki gott að slá því fram sem nýju neti að fækkun opinberra starfsmanna sé ein og sér til góðs svo dæmi sé tekið. Og hvar liggur þessi tugmilljarða sparnaður?

Menn þurfa að ræða nákvæmar hvað við er átt: Á að spara tugmilljarða með fækkun lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða? Eru lögreglumenn of margir, kennarar, vísindamenn, leiðbeinendur og afgreiðslufólk hjá almannatryggingum? Og ef draga þarf úr starfsemi sem þetta fólk sinnir, er þá meiningin að það sinni þessum sömu störfum í einkarekstrri? Yrði það ódýrara og betra? Eða á þetta fólk að finna sér annan starfsvettvang og þá hvar? Þarf að þenja bankakerfið enn betur út? Tökum þessa umræðu.

Það eru hagsmunir okkar allra að kerfisbreytingar sem ráðist verður í séu vel grundaðar og lausar við hvers kyns lýðskrum. Áróðursmeistarar gera engum greiða með því að gefa gyllivonir um tugmilljarða óskilgreindan sparnað. Ef hins vegar vel er á haldið mun okkur takast ágætlega upp á þeirri vegferð sem þróuð samfélög hafa verið á undanfarna áratugi; að þoka sér í átt til markvissari vinnubragða sem vissulega hafa haft í för með sér sparnað en aðallega stórbætta þjónustu. Þarna skipta einmitt vinnubrögðin öllu máli, umgjörðin minna máli þótt í umræðunni vilji ákafamenn gjarnan snúa þessu á haus; einblíni á stofnanir en horfa minna til þess sem raunverulega máli skiptir, þeirra verkefna sem þær eiga að sinna.

Fréttabréf