STJÓRNMÁLAFLOKKUM ER VANDI Á HÖNDUM Í KOMANDI KOSNINGUM Í REYKJAVÍK

Flugvöllurinn - 72%

Enn eina ferðina kemur fram skoðanakönnun sem færir okkur heim sanninn um að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík og meirihluti Reykvíkinga er á sama máli. Flugvöllurinn skal vera.

Á sama tíma kemur fram að flestir borgarfulltrúar eru á öndverðum meiði við meirihlutann.  ( Sjá td. hér: http://ogmundur.is/annad/nr/6806/ )Og  ennfremur að allir hyggjast þessir fulltrúar bjóða sig fram að nýju. Sumir  þeirra, sem fram til þessa hafa fylgt harðlínustefnu í málinu, tala nú mjúklega í aðdraganda prófkjöra fyrir sátt, sem annað hvort virðist eiga að felast í því að malbika Skerjafjörðinn eða þrengja svo að innanlandsfluginu að það verði hvorki fugl né fiskur. Um það verður að sjálfsögðu aldrei nein sátt. Ef til vill niðurstaða undir einhvejum kringumstæðum, en engin sátt.

Í mínum huga er sú leið vænlegust að leysa flugvallarmálið með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um það.

Innanríkisráðherra segir skipulagsvald meirhlutans í Reykjavík eigi að vera allsráðandi, heilagt orð sem ekki verði gengið gegn.

En svo er væntanlega til nokkuð sem heitir ábyrgð Alþingis og ábyrgð ráðherra á samþykktum Alþingis og samgöngumálum þjóðarinnar og svo einnig ábyrgð á undirrituðum samningum ráðherra samgöngumála. Sl. vor var undirrritað samkomulag milli borgarinnar og ríkisins um lokun norð-austur/suð-vestur brautar. Það samkomulag var háð mjög skýrum og ákveðnum skilyrðum um rekstrarmöguleika fluvallarins inn í framtíðina. Ef þau skilyrði yrðu ekki fyrir hendi, þá væri samkomulagið úr sögunni. Þetta hefur alltaf verið kýrskýrt, og væntanlega "heilög" skylda ráðherra að framfylgja. Eða hvað? Við því þarf að fá svör og eftir þeim verður gengið ef þörf krefur. ( Sjá hér: http://ogmundur.is/annad/nr/6729/ )

Ég ber virðingu fyrir fólki sem vill standa og falla með sannfæringu sinni. Líka gegn flugvelli í Vatnsmýrinni. Ef það á annað borð er ekki bara tilbúið að standa heldur líka falla. En hvernig fara kjósendur að ef í forsvar stjórnmálaflokkanna og efst á lista er sett fólk sem er staðráðið í því að beita sér gegn meirihlutaviljanum og þá einnig gegn vilja viðkomandi kjósenda eftir komandi kosningar? 

Flokkarnir hljóta að huga að þessu við uppstillingu á lista. Og kjósendur síðan í kjölfarið.   

Fréttabréf