Fara í efni

FÓRNARLÖMB AUÐLEGÐARSKATTSINS BERA HÖND FYRIR HÖFUÐ SÉR

BÍTIÐ
BÍTIÐ


Fyrrverandi ríkisstjórn setti á svokallaðan auðlegðarskatt. Einhleypingar sem eiga hreina eign umfram 75 milljónir króna borga 1,5% af umframeigninni og 2% af hreinni eign umfram 150 milljónir króna. Hjá hjónum er eignamarkið 100 milljónir og skal þá greitt 1,5% upp að 200 milljónum en 2% eftir það.
Þetta skilaði ríkissjóði rúmum 6 milljörðum árið 2012. Munar um minna.
Eins og fleira á undangengnum árum var þetta hugsað sem tímbundin ráðstöfun. Niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni var einnig hugsaður sem tímabundin ráðstöfun, líka í lögreglunni, niðurskurðurinn þar var hugsaður sem tímabundin ráðstöfun.
Nú er verið að smíða fjárlög og velta öllum steinum er okkur sagt. Auðlegðarskattinn virðist hins vegar ekki vera álitamál. Hann skal renna út við næstu áramót. Þá sleppur eignafólk við að borga skatta af auðlegð sinni.
Forsíða DV í dag segir sína sögu og þar kristallast fyrir hverja þessi ríkisstjórn starfar. Þar eru myndir af nokkrum greiðendum auðlegðarskatts, þar á meðal eru oddvitar ríkisstjórnarflokkanna. Með afnámi auðlegðarskattsins eru þessi fórnarlömb auðlegðarskattsins að bera hönd fyrir höfuð sér.
Sagt hefur verið að auðlegðarskatturinn geti verið ósanngjarn, eigna-markið sé of lágt. Ef svo er, þá endurskoðum við þessi mörk. Sjálfum finnst mér ekki rétt að gera greinarmun á einstaklingum og hjónum. Og ekki vil ég þvinga einstakling út úr íbúðarhúsnæði eftir fráfall maka. En gleymum því ekki að skatturinn kemur aðeins á hreina eign umfram framangreind mörk. Einsklingur sem á 85 milljón króna hreina eign greiðir þannig aðeins 1,5% af 10  milljónum, ekki allri upphæðinni. Það gerir 150 þúsund krónur.
Við ræddum þetta í Bítinu á Bylgjunni í morgun við Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði í lokin að viðhorf okkar sýndu muninn á hægri sttefnu og vinstri stefnu. Um það var ég sammála Brynjari.
Umræðan: http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=20541