Fara í efni

EIGNARHALD Á BÖNKUM - RÍKISSTJÓRNIN - OG GJALDEYRISHÖFTIN

Bankamál - eignarhald
Bankamál - eignarhald


Nú er okkur sagt að erlendir fjárfestar vilja kaupa Íslandsbanka. Er það gott eða slæmt? Spurningin er mikilvæg og kemur okkur öllum við. Bankastjóri nokkur sagði í aðdraganda hrunsins að bankinn sem hann stýrði væri bara banki, það væri liðin tíð að kenna hann við Ísland eða nokkurt land yfirleitt. Heimurinn allur væri undir. Hitt heyrði sögunni til.
Svo kom hrunið og við uppgötvuðum að bankarnir voru eftir allt saman íslenskir - því það var íslenskt samfélag sem fékk að blæða. Það skiptir máli fyrir efnahagslíf hverrar þjóðar hvernig fjármálakerfi hennar er rekið og hvað það er sem vakir fyrir eigendum fjármálastofnana til skamms og til langs tíma. Nákvæmlega þetta þurfum við að vita áður en við svörum spurningunni varðandi hugsanlega erlenda  kaupendur.

Hver er stefna ríkisstjórnarinnar?

1) Í fyrsta lagi þurfum við að vita hver er framtíðarsýn íslenskra stjórnvalda varðandi eignarhald á bönkunum. Fyrrverandi ríkisstjórn taldi að einn banki ætti að minnsta kosti að vera í eign samfélagsins, m.ö.o. ríkisbanki. Það væri augljóslega Landsbankinn. Á blað var sett það markmið að hann yrði í ríkiseigu að þremur fjóðru hlutum að minnsta kosti. Innan VG var það hins vegar orðið ríkjandi viðhorf að þetta hlutfall skyldi vera 100%. Frá stofnun VG hefur verið litið á það sem grundvallaratriði að kjölfestan í bankakerfiu sé undir handarjaðri almennings með eignarhaldi ríkisins. Það hefur sýnt sig að einkavætt eignarhald reyndist ekki vel. En hver er stefna núverandi ríkisstjórnar?

Hver eru markmið kaupandans?

2) Í öðru lagi þurfum við að þekkja hvað það er sem fyrir kaupandanum vakir. Ég sé ekki að það geti verið keppikefli að koma eignarhaldi bankanna úr landi einfaldlega vegna þess að arðurinn staðnæmist í íslensku samfélagi ef eignarhaldið er innlent en fer að öðrum kosti úr landi. Við þessu er hins vegar lítið að gera ef bankarnir á annað borð eru settir á markað. En hvað er það sem vakir fyrir kaupandanum; að soga fjármagn út úr starfseminni að hætti íslenkra eigenda í aðdraganda hruns? Eða reka heiðvirða bankastarfsemi? Við skulum heldur ekki gleyma því að eitt aðaleinkenni íslenskra banka nú um stundir er að sýsla með kröfur á íslensk heimili og fyrirtæki, þannig að ef við seljum þær kröfur til erlendra aðila, erum við að selja vald yfir íslenskum heimilum og fyrirtækjum úr landi. Sala út úr landinu er þannig valdaframsal í þeim skilningi.

Ríkisstjórninni treystandi?

3)Landsbankinn er 98% í eigu ríkisins, 2% í eigu starfsmanna (einsog frægt er orðið eftir bónusgreiðslur).  Íslandsbanki er hins vegar 95% í eigu kröfuhafa og Aríon banki 87% í eigu kröfuhafa. Eignarhaldið í síðarnefndu bönkunum er dragbítur á íslenskt efnahagslíf. Skammtímahagsmunir erlendra kröfuhafa  að losa fjármagn frá Íslandi og langtíma hagsmunir Íslands við að styrkja íslenskt efnahagslif fara ekki saman. Þessu verður að linna. Breytinar mega hins vegar ekki gerast með óðagoti. Sú hætta er fyrir hendi að ríkið - eða öllu heldur ríkisstjórnin sem hefur lofað ótæpilega upp í ermina á sér - vilji flýta söluferli  og selja sem mest til að fá sem fyrst eitthvað upp í loforðin. Þetta kann að vera raunveruleg hætta.

Það sem gera þarf

Niðurstaða mín er sú að tryggja þurfi að á Íslandi sé stöndugur ríkisbanki. Stuðla þarf að því að aðrir bankar séu reknir af traustum aðilum sem hafa það að markmiði að þjónusta íslensk heimili og atvinnulíf en ekki að mergsjúga bankastarfsemina með skammtímahagsmuni  að leiðarljósi.

Gjaldeyrishöftin eru vopn Íslands

Mönnum verður tíðrætt um mikilvægi þess að losna við gjaldeyrishöftin, en þau verða 99% þjóðarinnar ekki vör við! Vissulega væri  gott að vera laus við höftin því þau skapa margvísleg vandkvæði í viðskiptum og hafa í för með sér ákveðna erfiðleika í efnahagslífinu. En afnám gjaldeyrishafta verður að skoða með hliðsjón af getu þjóðarbúsins til að flytja eignir út úr landinu. Höfuðmarkmiðið hlýtur að sjálfsögðu að vera að tryggja að íslenskt samfélag fái risið undir sjálfu sér. Það er meginmarkmiðið en ekki hitt að losa um höftin! Þau eru afleidd stærð og hljóta að bíða síns tíma. Gleymum því ekki heldur að gjaldeyrishöftin eru vopn Íslands í varnarbaráttu gegn óbilgjörnum kröfuhöfum.

Þörf  á yfirvegaðri umræðu

Ég ætla mér alls ekki þá dul að hafa yfirsýn yfir alla þætti þessa máls. Ég efast reyndar um að nokkur einn maður hafi það fullkomlega enda margt matskennt og byggt á líkindum. Þetta er hópverkefni. Því er mikilvægt að efna til breiðrar umræðu um þessi mál og virkja þar sem flest kunnáttufólk. Kauptilboð Kínverjanna ætti að vera ágætt tilefni til þess.