Fara í efni

RÁÐHERRA Á GRÁU SVÆÐI

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segir að reglugerð sem ég setti um kaup útlendinga á fasteignum hér á landi sé á gráu svæði að mati eftirlitsstofnunar Efta. Þess vegna hafi hún numið hana úr gildi.
Lesendum til upplýsingar vil ég skýra eftirfarandi. Ýmsar þjóðir innan EES hafa viljað leita leiða til að sporna gegn uppkaupum auðmanna á jörðum, bæði innlendra og erlendra. Nefni ég þar Dani og Norðmenn sérstaklega. Sjálfur deili ég þessum sjónarmiðum og hef margoft fært opinberlega rök fyrir þeim. Ég gerði mér grein fyrir því að taka þyrfti á málinu á margþættan hátt en aðeins að hluta til heyrði það undir það ráðuneyti sem ég fór fyrir, Innanríkisráðuneytið, og sneri þá einkum að kaupum útlendinga á landi.
Ég gerði mér jafnframt grein fyrir því að málið kynni að verða umdeilt, bæði hér innanlands og erlendis. Enda fór svo að eftirlitsstofnun ESA óskaði eftir greinargerð. Leitaði ég þess vegna til færustu sérfræðinga sem völ er á að vera til ráðgjafar um útfærslu á þeim ásetningi mínum að setja landakaupum skorður. Í frétt á vef Innanríkisráðuneytisins 25. janúar sl., þar sem kynnt var frumvarp að lagabreytingu sem tæki til landakaupa útlendinga utan sem innan EES annars vegar og hins vegar reglugerðarbreyting gagnvart EES borgurum, segir: „Í tengslum við þessar athuganir hefur innanríkisráðuneytið aflað tveggja álitsgerða, annars vegar frá Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Valgerði Sólnes lögfræðingi. Hins vegar frá Jens Hartig Danielsen, prófessor við lagadeild Háskólans í Árósum, og Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, en þar er fjallað sérstaklega um reglur EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga og fjárfestingu í fasteignum."
Frumvarpið lagði ég síðan fram til kynningar á Alþingi - þar sem það er enn statt - en reglugerðina undirritaði ég 17. apríl þegar hún hafði staðið til kynningar í nær þrjá mánuði.
Ég taldi það vera lykilatriði að greinargerðir fræðimannanna kæmu fram við kynninguna  svo hugsanlegum andmælendum gæfist kostur að taka upp málefnalega umræðu um það sem Hanna Birna Kristjánsdóttir segir nú að sé á gráu svæði.
En mér verður á að spyrja hvort það séu ekki einmitt vinnubrögð núverandi ráðherra í þessu máli sem þegar allt kemur til alls séu á gráu svæði. Engin kynning, engin málefnaleg rök, bara staðhæfing um að slæmt sé að halda sig á gráu svæði. En einmitt þar sýnist mér ráðherrann halda sig.

http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/07/26/hanna-birna-fellir-ur-gildi-reglugerd-ogmundar-reglugerdin-var-a-grau-svaedi/

http://www.ruv.is/frett/umbodsmadur-segir-likur-huangs-nubo-aukast

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/07/26/naer_allar_umsoknir_samthykktar/