Fara í efni

STILLING LÖGREGLUNNUR ER STYRKUR HENNAR


Hátt í tíu þúsund manns voru á Austurvelli í kvöld til að mótmæla ríkisstjórn og Alþingi. Eflaust var tilefnið margvíslegt, sumum þykir ríkisstjórnin ekki rísa undir væntingum, öðrum að þingið hafi brugðist; að bankarnir og stjórnmála-  og stofnanakerfi landsins þjóni ekki fólki sem skyldi. Svo var fjárlagafumvarpið að koma með áframhaldandi niðurskurði. AGS minnti einnig á sig í fréttatímum dagsins með hefðbundnum boðskap um að ekki mætti koma til móts við skuldara með almennum aðgerðum. Og nú eru mánaðamót þegar lánastofnanir krefjast afborgana.  
Eldar loguðu, egg flugu og því miður einnig grjót og golfkúlur í Alþingishúsið, „húsið okkar" eins og ung stúlka minnti á svo eftirminnilega haustið 2008. „Þetta er húsið okkar" sagði hún og stillti sér upp fyrir framan Alþingishúsið sem þá hafði verið undir skothríð eggja- og grjótkasts. En við þessi orð stúlkunnar hætti grjótkastið.
Lögreglan fékk sinn skerf af grjóti  í kvöld. Og þinghúsið líka. Eldar loguðu á Austurvelli. Fólki var heitt í hamsi. Það var réttlát reiði - hjá flestum.
Öllum bar saman um að lögreglan hefði sýnt æðruleysi og stillingu. Og þar með raunverulegan styrk. Stilling er styrkur var einu sinni sagt. Réttilega. Og þannig viljum við hafa lögregluna, rólega , yfirvegaða og æðrulausa: Gæslumenn mannréttinda.