Fara í efni

KRÖFTUGUR FORMAÐUR HEIMSSÝNAR


Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, hefur verið kjörinn formaður Heimssýnar, samtaka sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Sannast sagna kom það mér svolítið á óvart að heyra það haft eftir ónafngreindum þingmönnum Samfylkingarinnar (sjá t.d. hér: http://www.visir.is/article/20091116/FRETTIR01/990695059/1168 ) að þeim þætti óeðlilegt að þingmaður annars stjórnarflokksins gerðist formaður samtaka sem beittu sér gegn aðild að Evrópusambandinu á sama tíma og ríkisstjórnin sækti um aðild að sambandinu.

Ásmundur Einar hefur svarað þessu vel og tek ég hjartanlega undir sjónarmið hans. Sjálfur stend ég að aðildarumsókn að ESB til að framfylgja kröfum í þjóðfélaginu um lýðræðislega afgreiðslu á þessu máli án þess nokkurn tímann að hafa látið af andstöðu minni við aðild.

Sannast sagna hef ég ALDREI verið því eins fráhverfur og nú að ganga inn í Evrópusambandið. Má ég ekki segja það? Má bara tala fyrir inngöngu og að það sé allra meina bót að Ísland gangi í ESB? Að sjálfsögðu er það ekki svo enda hef ég ekki trú á því að þetta sé almennt viðhorf innan Samfylkingarinnar.

Við skulum takast málefnalega á um Evrópusambandsaðild. Það er gott og lýðræðislega heilsusamlegt. Í þeirri umræðu er þörf á umburðarlyndi. Þeir sem trúa á málstað sinn hafa alltaf efni á því - umburðarlyndinu.