Fara í efni

FUNDUR Í KRAGA OG YFIRLÝSING FORSÆTISRÁÐHERRA


Á fundi með VG - félögum í Kraganum í Kópavogi í gær skýrði ég aðdragandann að afsögn minni úr ríkisstjórn.. Þar kom fram að í andmælum Breta og Hollendinga við fyrirvörum Alþingis við Icesaveskuldbindingum Íslands frá í sumar, hefði komið fram að þessar þjóðir neituðu okkur um að véfengja greiðsluskyldu okkar og leita til dómstóla. Þið megið vissulega véfengja skyldur ykkar, sögðu lánadrottnarnir en jafnframt verðið þið að skuldbinda ykkur til að borga það sem við setjum upp hverjar svo sem niðurstöður dómstóla yrðu!
Með öðrum orðum, gerð var krafa um að við múruðum inn og innsigluðum eftirgjöf á að leita réttar okkar og fyrirgerðum okkur hagstæðum dómsúrskurði sem kynni að falla! Ég sagðist aldrei geta samþykkt neitt af þessu tagi og gæti því ekki veitt stuðning við málið á þessu stigi - einsog krafist var af mér -  auk þess sem mig greindi á um alla málsmeðferð við oddvita ríkisstjórnarinnar.

Í hádegisfréttum á RÚV í dag lýsti Jóhanna Sigurðardóttir, fosætisráðherra, því yfir að þessi afstaða Breta og Hollendinga gengi ekki upp og að Íslendingar gætu ekki afsalað sér lagalegum rétti sínum. Þetta er mikilvæg yfirlýsing af hálfu forsætisráðherra og mjög í rétta átt.
Frétt RÚV: http://dagskra.ruv.is/ras1/4486763/2009/10/11/0/

Fundurinn í Kraganum var góður, fullt út úr dyrum - á annað hundrað manns -  þótt hann væri boðaður með afar skömmum fyrirvara. Mér þótti vænt um þann skilning á afstöðu minni og stuðningi sem fram kom á fundinum. Enginn barlómur í Kraganum í gær.