Fara í efni

AGS-KRÖFUR: EINKAVÆÐING OG BÓKHALDSFALS?


Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er í þann veginn - náðarsamlegast - að veita Íslandi blessun fyrir áfanga í píslargöngu sinni til að að geta talist að nýju þjóð á meðal þjóða í markaðsheiminum. Að vísu þurfti þessi Rannsóknarréttur 21. aldarinnar að veita hinni syndugu þjóð "undanþágur" til að hljóta sína stundaraflausn. Ísland hafði nefnilega gerst sekt um að standast ekki kröfur um "lánsfjárjöfnuð" ríkissjóðs í desember sökum þess að hrunið hafði reynst kostnaðarsamara en í fyrstu hafði verið ætlað og gjaldeyrisforði hafði einnig verið undir viðmiðunarmörkum. Einnig þurfti "undanþágu"  vegna þess að herða hafði þurft á gjaldeyrishöftum nýlega til að koma í veg fyrir of mikið útstreymi.

Svona gerum við þegar við einkavæðum...

En staðnæmumst ögn við "lánsfjárjöfnuð" ríkissjóðs. Þetta er klassískt áhyggjuefni (og stjórntæki!) Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvar sem hann drepur niður fæti. Hvernig skyldi nú vera hægt að leysa vandamál á borð við "lánsfjárhalla"?  
Það er ósköp einföld lausn til á honum fyrir aðila sem skilgreinir hlutverk sitt fyrst og síðast sem hagsmunagæslu fyrir fjármagnið. Það er gert með einkavæðingu og einkaframkvæmd. Þannig er því til dæmis hafnað að fara einföldustu leið í fjármögnun Landspítala háskólasjúkrahúss og fá fjármuni að láni hjá lífeyrissjóðunum á hæfilegum vöxtum - og þess í stað búinn til milliliður - einkaframkvæmdaraðili sem tekur lánið, en ríkissjóður hins vegar látinn gerast leiguliði.
Framkvæmdin verður þá að veruleika, skattborgarinn borgar brúsann nema hvað nú heitir það ekki lán sem hann tekur og borgar af,  heldur leiga sem hann greiðir. Og nú bregður svo við að enga undanþágu þarf hjá Rannsóknarrétinum vegna óhagstæðs "lánsfjárjöfnuðar". Á þessum ritvelli hefði þetta einhvern tíma verið kallað bókhaldsfals.

Umræðu er þörf!

Sama í öðrum framkvæmdum. Eða hvers vegna skyldi nú einvörðungu rætt um einkaframkvæmd í samgöngumálum? Vegna þess að það er ódýrara og hagkvæmara - hvort sem það er ríkissjóður eða notandinn beint? Varla, því sýnt hefur verið fram á að svo er ekki. Þvert á móti. Sýnt hefur verið fram á að þetta er dýrari kostur.
Samt á að fara þessa leið, eða hvað? Mér brá svoldið á fundi nefndar sem ég hef nýverið tekið sæti í og fjallar um fjárfestingar á vegum hins opinbera, þegar rann upp fyrir mér að það er hugmyndafræði AGS sem stýrir för í vinnu nefndarinnar. Þessa hugmyndafræði þarf að ræða. Opinberlega. Forsenda þess að teknar verði ákvarðanir í þágu almannahagsmuna er opin og lýðræðisleg umræða. Hennar er nú þörf í ríkari mæli en verið hefur.