Fara í efni

ÞJÓÐ Í ÞRENGINGUM

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2009

Morgunblaðið fjallar síðastliðinn mánudag um viðskipti í heilbrigðisþjónustu. Tilefnið er áhugi "einkarekna heilbrigðisfyrirtækisins Nordhus Medica... á að nýta vannýttar skurðstofur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar myndu t.d. sjúklingar frá Noregi og Svíþjóð fara í aðgerðir, niðurgreiddar af heimaríkjum sínum." Heilbrigðisráðherrann, undirritaður, er sagður standa í vegi fyrir því að þessar kröfur nái fram að ganga og sjái "ekki ástæðu til að fjalla málefnalega um þær næstu 6-7 vikurnar." Svara sé fyrst að vænta 15. ágúst. Þetta sé aldeilis furðulegt því fjárhagsstaða Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sé bágborin, þjónustan hafi verið skert, en nú bjóðist "sértekjur sem geti styrkt stofnunina."

Útrás dr. Nordhus

Nokkrum dögum fyrr hafði Ottó Nordhus, eigandi Nordhus Medica, látið svipaðar skoðanir í ljós á síðum Morgunblaðsins. Einnig hann sagði að heilbrigðisráðherrann væri sér þrándur í götu, enda hefði hann sannfrétt að maðurinn væri kommúnisti. Af þessu ræð ég á hvern hátt Ottó Nordhus er upplýstur af viðskiptafélögum sínum hér á landi og öðrum þeim sem vilja opna faðm hins íslenska skattborgara fyrir einkaspítala Ottós: "Skurðstofan er þarna, húsið er þarna og starfsfólk sem kann sitt fag og af hverju ekki að nota það?" spyr Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands, í viðtali við Morgunblaðið. Formanni LÍ til upplýsingar vil ég benda á að starfsfólk og húsakostur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er "vel nýtt". Spurningin snýst hins vegar um hvort nýta megi hvort tveggja enn betur og á markvissari hátt.

Að þjóna samfélagi sínu

Út á nákvæmlega þetta gengur sú vinna sem fram hefur farið á vegum heilbrigðisráðuneytisins í samvinnu við sjúkrahúsin á suðvesturhorni landsins. Leiðarahöfund Morgunblaðsins fullvissa ég um að sú vinna er vönduð og "málefnaleg". Það hefur sýnt sig að vinna sem unnin er úr tengslum við starfsfólk og samfélagið sem viðkomandi stofnanir eiga að þjóna skilar ekki árangri. Þvert á móti skilja slík vinnubrögð eftir sig sviðna jörð og óánægju. Hinn "málefnalegi" þáttur í okkar vinnu er að spyrja á hvern hátt megi búa svo um hnútana að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þjóni samfélaginu enn betur en stofnunin gerir nú. Slík lausn verður uppi á borðinu um miðjan ágúst eins og ég hef boðað.
Auðvitað má með sanni segja að það sé "málefnaleg" afstaða út af fyrir sig að gefa sér þá lausn fyrirfram að tilkoma aðfluttra sjúklinga á vegum einkaaðila henti best til að styrkja Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. En vandinn er sá að um slíka flutninga eru talsverðar deilur á Norðurlöndum og innan Evrópusambandsins - tilskipunin, sem slík viðskipti hvíla á, mun ekki ná inn í lagaramma ESB í bráð. Vissulega borga sjúkratryggingar heimalands sjúklings sem er í förum landa í milli í mörgum tilvikum. En tekist er á um skilmálana. Nordhus gefur lítið fyrir að sýna biðlund þótt málið sé ekki frágengið á vettvangi ESB og einstakra aðildarríkja sambandsins, þar á meðal Norðurlandanna: "Við bíðum ekki svo lengi...", segir hann Morgunblaðinu. Þetta segir mér að þessi viðskiptahugmynd sé hugsanlega ekki á eins traustum grunni og ætla mætti.

Samfélagslegt samstarf

Annað er að stórfenglegar patentlausnir í viðskiptum hafa á undanförnum árum oft reynst fallvaltar þegar á hólminn er komið. Þess vegna þarf að fara varlega í sakirnar þegar beinlínis er lagt til að heilbrigðisþjónustan verði skipulögð með slíka starfsemi sem útgangspunkt eins og mér virðist Morgunblaðið og ýmsir stjórnmálamenn vilja gera. Nær væri að huga að samstarfi á borð við það sem ég hef rætt við norsk heilbrigðisyfirvöld á sviði innkaupa og lyfjamála og hugsanlega einnig samnýtingu heilbrigðiskerfa Íslands og Noregs með almannahagsmuni í huga, en ekki annað.
Allt þetta er nú á vinnsluborði og þótt einhverjar vikur eða mánuðir líði á meðan allir kostir eru skoðaðir í þaula verða menn á borð við Otto Nordhus og viðskiptafélaga hans hér á landi að sýna okkur biðlund og kannski líka lágmarkskurteisi. Við megum almennt ekki láta vonina um skammtímagróða spenna okkur upp. Nóg er komið af slíku.

Velgjörðarmenn?

Hvort flokka á aðkomu Ottos Nordhus að umræðu um heilbrigðismál á Íslandi sem "málefnalega", verður hvert og eitt okkar að dæma. Sjálfum fannst mér ekki laust við óþægilegan tón, þegar hann minnti okkur á að hann kæmi úr hópi velgjörðarmanna Íslendinga, sem við ættum væntanlega að standa í þakkarskuld við: "Íslensk stjórnvöld leituðu til norrænna samherja sinna í leit að lánum (eftir bankahrunið). Þau voru veitt en þegar þeim býðst að fjölga störfum segja þau nei!" Morgunblaðið hefur ekki teljandi áhyggjur af þessu viðhorfi. Það leyfi ég mér hins vegar að gera.
Nákvæmlega þetta er hætt við að hendi þjóð í þrengingum. Þegar fjárhagur hennar er bágborinn, þrengt að velferðinni, þá sækja að henni aðilar sem ekki eru allir þeir raunverulegu "velgjörðarmenn"sem þeir vilja vera láta.

Höfundur er heilbrigðisráðherra