Fara í efni

SAMHENGI KVÓTAUMRÆÐUNNAR


Mikið er dapurlegt að hlusta á talsmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gráta það að til standi að afnema kvótabrask í sjávarútvegi; að loksins, eftir áratuga mótmæli þjóðarinnar, eigi að taka á kvótakerfinu, innkalla aflaheimildir frá mönnum sem hafa sölsað þær til sín til að braska með í eigin þágu og láta þær ganga til endurúthlutunar á réttlátum forsendum. Þetta á ekki að gerast í einu vetfangi einsog margir hafa krafist. Nei, þetta á að gerast á tveimur áratugum!!!

Í drögum sem lágu að frumvarpi til stjórnskipunarlaga fyrir kosningar - og Sjálfstæðisflokkurinn lagðist í málþóf gegn, var að finna eftirfarandi setningu: "Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareigin má ekki selja eða láta varanlega af hendi."

Að mínum dómi er þetta brýnasta hagsmunamál Íslands: Að tryggja eign þjóðarinnar á auðlindunum. Þar með sjávarauðlindinni að sjálfsögðu. Afnám kvótakerfisins í núverandi mynd þýðir ekki að þau sjávarútvegsfyrirtæki sem nú eru við lýði, hætti að geta nýtt þessa auðlind. Síður en svo. Það sem breytist er að handhafar kvótans hætta að geta braskað með hann og níðst á nýliðum í greininni sem þeir hafa getað arðrænt að eigin vild.

Hvert gjald þjóðfélagsins fyrir afnot af kvótanum verður - og hvort það verður yfirleitt - er síðan allt önnur umræða. Þess vegna er fráleitt að stilla afnámi braskkerfisins upp á forsendum grátkórs útgerðarfyrirtækja eins og nú er gert í hverjum fréttatíma á fætur öðrum og gefið í skyn að sjávarútvegurinn komist á heljarþröm verði þetta gert! Þau fyrirtæki sem eru nú við lýði í greininni standa öllum öðrum betur að vígi þegar kemur að því að nýta sjávarauðlindina vegna tækja og tóla og annarrar aðstöðu sem þau byggja starfsemi sína á. Eigendur stöndugra sjávarútvegsfyrirtækja með miklar kvótaheimildir í handraðanum munu hins vegar ekki lengur geta sett heil byggðarlög á hausinn og vísað starfsfólki út á guð og gaddinn ef braskmöguleikar hafa gefist utan sjávarbyggðarinnar. Þetta hefur verið vandinn.

Ýmsir hafa haldið því fram með góðum rökum að einkavæðing sjávarauðlindarinnar hafi verið upphafið að öllu ruglinu. Nú á að koma þessu í skynsamlegan og réttlátan farveg og gefa sér til þess góðan tíma.

Þjóðin fagnar. En Sjálfstæðisflokkur og Framsókn gráta. Voru þessir flokkar ekki að tala um að endurnýja viðhorf sín og þankagang? Nær sú endurnýjun ekki út fyrir fjörugrjótið?