Fara í efni

LÍFEYRISSJÓÐIRNIR TIL BJARGAR


Fyrirsjáanlegur er mikill halli á fjárlögum næsta árs. Spurt er hvernig hann verði fjármagnaður. Menn hafa staðnæmst við augljósa nauðvörn fyrir ríkissjóð: Auka tekjur og draga úr útgjöldum. Þetta nægir hins vegar ekki. Þótt við aukum skatttekjur jafnframt því sem við gerum skattkerfið réttlátara og drögum úr útgjöldum með því að forgangsraða verkefnum og leita eftir sparnaði, þá nægir þetta ekki því velferðarþjónustunni ætlum við að hlífa. Við megum ekki ganga svo nærri henni að á henni verði unnið tjón til frambúðar. Tíu prósent niðurskurður á ríkisútgjöldum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til myndi gera það. Það er hverju barni augljóst. Nema kannski Sjálfstæðisflokknum, sjálfum hönnuði kreppunnar; flokknum sem setti okkur í skuldaklafann. Hann ætlar að vinna á fimmtíu milljarða niðurskurðarkröfu með því að sameina Landhelgisgæsluna og Öryggismálastofnun! Og svo náttúrlega skera niður og einkavæða að gamalkunnum hætti.

Hvað er þá til ráða? Hér hljótum við að horfa til lífeyrissjóðanna. Að mínu mati eiga lífeyrissjóðirnir að lána ríkinu fé. Á mannamáli þýðir þetta að lána fé til að forða okkur frá því að eyðileggja sjúkrahúsin og vanrækja fatlaða. Lífeyrissjóðirnir eiga að mínu mati að forgangsraða fjárfestingum sínum algerlega í þágu ríkissjóðs og þar með velferðarkerfisins. Í lífeyriskerfinu liggja fjármunir þjóðarinnar og nú þegar hún á allt undir því komið að halda sjó þá hlýtur að verða gripið til þessa úrræðis. Ef hrunið hefði ekki komið til hefðu lífeyrissjóðirnir haft um tvö hundruð milljarða til fjárfestinga á næsta ári. Að öllum líkindum verða fjárfestingarnar á bilinu 120 til 150 milljarðar. Það eru miklir fjármunir. Samfélagsþjónustunni væri borgið ef hún fengi hluta þessara fjármuna tímabundið að láni - á vöxtum - þannig að okkur gæfist meira svigrúm til að bjarga og byggja upp.

Fyrir lífeyrissjóðina væri þetta hagkvæm og skynsamleg fjárfesting. Hjá ríkinu væru fjármunirnir vel komnir - jafnvel þótt ríkið standi nú höllum fæti. Fjárfesting með ríkið - okkur öll -  sem bakhjarl er öruggari en í fallvöltum atvinnufyrirtækjum. Þetta sanna dæmin. Svo er á hitt að líta að í gegnum almannasjóði streyma peningarnir að nýju út í atvinnulifið í framkvæmdum og þar með til fyrirtækjanna. Þetta myndi því gagnast fyrirtækjum í atvinnurekstri  þótt mest liggi fyrirtækjunum á því að fá vextina niður undir frostmark.

Meginrök eru einnig þessi: Ef samfélagið hrynur þá hrynja einnig lífeyrissjóðirnir. Hvorugt ætlum við að láta gerast. Nú þurfa öll félagsleg öfl í landinu að taka höndum saman til að reisa Ísland við.