Fara í efni

ÞINGFLOKKUR VG ÁLYKTAR UM UPPGJÖF RÍKISSTJÓRNARINNAR


Í dag rann út frestur til að lögsækja bresk stjórnvöld fyrir að beita Íslendinga hryðjuverkalögum. Það gerði Gordon Brown, forsætisráðherra Breta  til að slá tvær flugur í einu höggi: Eyðileggja íslenska bankakerfið erlendum fjárfestingafyrirtækjum sem víti til varnaðar og til að bæta eigin stöðu í skoðanakönnunum.
Íslenska ríkisstjórnin þorði ekki í mál og má ráða af því að hún hafi enga trú á málstað Íslendinga. Formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segja okkur að tilteknir lögfræðingar hafi sagt þeim að málstaður Íslands væri ekki það góður að hættandi væri á að láta á hann reyna fyrir breskum dómstólum! Af gögnum sem ég hef séð er þetta ekki sannfærandi og auk þess eru þetta hrikaleg skilboð til breskra stjórnvalda og bresks almennings. Enn hrikalegri skilaboð eru þetta til íslensku þjóðarinnar um viðhorf talsmanna þjóðarinnar.
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs ályktaði í dag af þessu tilefni og fylgir ályktunin hér á eftir.

YFIRLÝSING FRÁ ÞINGFLOKKI VG:
Þingflokkur Vinstri grænna lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni vegna alvarlegra og dýrkeyptra mistaka við meðferð Icesave-deilunnar, bæði í aðdraganda og síðar úrvinnslu málsins. Kaflaskil eru í málinu kl. 16 í dag, þegar frestur rennur út til að kæra þá ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins að beita hryðjuverkalögum til að frysta íslenskar eignir í Bretlandi. Enn og aftur bregst ríkisstjórnin þeirri skyldu sinni að gæta þjóðarhagsmuna á fullnægjandi hátt með því að nýta ekki möguleika til málshöfðunar fyrir breskum dómstólum til að rétta hlut Íslendinga.

Aðalatriði málsins eru eftirfarandi:

  1. Ríkisstjórnin, Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands sýndu óverjandi andvara- og aðgerðarleysi er íslenskum bönkum, en fyrst og fremst Landsbankanum, var leyft óátalið að safna gífurlegum fjárhæðum í erlendum útibúum á innláns- eða sparnaðarreikningum (Icesave-reikningunum) á ábyrgð íslenska innlánstryggingakerfisins.
  2. Þegar loksins var farið að greiða úr málinu voru samskipti við fjármálayfirvöld viðkomandi landa bæði ófagleg og ómarkviss. Margt er enn óljóst og/eða óupplýst hvað varðar fundi, bréf og samtöl íslenskra ráðherra og embættismanna um málið sem kann að hafa haft áhrif á framgöngu Breta.
  3. Í kjölfar aðgerða Breta 13. október sl. stóðu íslensk stjórnvöld afar illa að því að miðla upplýsingum og halda á málstað Íslands, jafnt innanlands sem utan.
  4. Framan af höfðu ýmsir ráðherrar ríkisstjórnarinnar uppi stór orð um að ekki kæmi til greina að Íslendingar létu kúga sig til uppgjafar í deilunni um hina lagalegu og þjóðréttarlegu ábyrgð landsins gagnvart Icesave-reikningunum. Talað var afdráttarlaust um rétt íslenskra stjórnvalda til að láta reyna á lagalega óvissu um hver ábyrgð íslenska ríkisins væri, ef einhver, umfram það að koma á fót innlánstryggingakerfi og mynda sérstakan sjóð í því skyni. Einnig fullyrtu ráðherrar að ekki kæmi til greina að deilunni um Icesave-reikningana yrði blandað saman við samningaviðræður um lánveitingu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS).
  5. Þann 16. nóvember gafst ríkisstjórnin í reynd upp í Icesave-málinu skrifað var undir yfirlýsingu um svokölluð sameiginleg viðmið til lausnar deilunni. Þetta var gert eftir að Bretar, Hollendingar, Þjóðverjar og loks Evrópusambandið í heild hafði tekið lánsumsókn Íslands til AGS í gíslingu og hótað Íslendingum afarkostum. Það að ríkisstjórnin skuli hafa undirgengist hin sameiginlegu viðmið voru afdrifarík mistök. Með því var í reynd fallist á að Ísland væri ábyrgt fyrir allt að 700 milljarða króna reikningi. Á þessari stundu er með öllu óvíst hvaða eignir koma á móti þessari skuld, og hvenær af því yrði. Í öllu falli stefnir í óheyrilegan vaxtakostnað íslenska þjóðarbúsins á löngu árabili.
  6. Í stað þess að segja þjóðinni heiðarlega og rétt frá því að í dag rennur endanlega út fresturinn til að kæra til dómstóla hina upphaflegu ákvörðun um að beita Íslendinga hryðjuverkalögum drepur ríkisstjórnin málinu á dreif með því að blanda saman óskyldum hlutum. Annars vegar er um að ræða þá ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins að frysta eignir Landsbankans á grundvelli hryðjuverkalaga; þá ákvörðun hefði annaðhvort eða bæði ríkið og Landsbankinn þurft að kæra fyrir klukkan 16 í dag. Hins vegar er um ræða yfirtöku breska fjármálaeftirlitsins á dótturfélagi Kaupþings í Bretlandi, breska bankanum Singer & Friedlander. Það að fara nú að tala um að reyna að koma málinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg er ömurlegur fyrirsláttur og beinlínis óheiðarlegt að reyna að láta líta svo út að það komi í staðinn fyrir málshöfðun nú. Þegar hafa sérfræðingar sagt að líklegt sé að Mannréttindadómstóllinn vísi slíku máli frá þar sem ekki var látið reyna áður til fulls á réttarúrræði í viðkomandi landi, þ.e.a.s. í Bretlandi.

Með því að falla fyrst frá því að fá úr því skorið hver raunveruleg ábyrgð Íslands er og nú með því að heykjast á því að annaðhvort ríkið eða Landsbankinn, eða báðir aðilar, höfði mál vegna ákvörðunar breska fjármálaráðuneytisins að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga, hefur ríkisstjórnin í reynd afsalað Íslendingum öllum lagalegum og réttarfarslegum möguleikum í málinu. Þess í stað á nú að skuldsetja íslenska skattgreiðendur og komandi kynslóðir svo nemur óheyrilegum fjárhæðum á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála. Niðurstaðan er að ríkisstjórnin hefur enn einu sinni brugðist, og það er að reynast þjóðinni dýrkeypt - þjóðinni sem mun þurfa að bera byrðarnar af mistökum og aðgerðarleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.