Fara í efni

SKRÁÐ VÖRUMERKI?


Í umræðu á Alþingi í dag furðuðu margir sig á því hvernig það geti farið saman að ráðast gegn grunngildum jafnaðarmennsku og  kenna sig um leið við jöfnuð. Þetta gerir Samfylkingin, sem mér er sagt að heiti jafnframt  Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

Í tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins eru skert kjör öryrkja, barnafólks, húsnæðiskaupenda, sjúklinga og annarra hópa sem standa höllum fæti  á sama tíma og hafnað er hátekjuskatti á hina efnameiri. Þetta er því mismununarstefna - ójafnaðastefna. Er að undra að menn skuli hafa mælst til þess að Samfylkingin breyti um nafn, heiti bara Samfylking hér eftir en reyni ekki að kenna sig við jöfnuð. Það geri hún ekki fyrr en hún sýni í verki að hún sé þess verðug.

Ég skal játa að ég fékk eftirþanka eftir að vekja á þessu máls í þinginu í dag og fletti því upp á heimasíðu Samfylkingarinnar hvað hún í raun heitir. Viti menn, hvergi fann ég minnst einu orði á Jafnaðarmannaflokk Íslands. Ég veit hins vegar að ég hef oft heyrt flokksmenn Samfylkingarinnar slá um sig með stóra jafnaðarmanna-nafninu, ekki síst fyrir kosningar.  Kannski hefur stóra nafnið verið tekið úr augsýn á meðan verið er að afgreiða fjárlögin.

Það er því spurning hvort „Jafnaðarmannaflokkur Íslands" hafi nú verið settur á ís, og nafngiftin geymd til síðari tíma sem skráð vörumerki. Nafnið verði síðan að nýju tekið til brúks í aðdraganda næstu alþingiskosninga þegar segja þarf þjóðinni aftur ósatt um þennan stjórnmálaflokk.