Fara í efni

HVERS VEGNA SEGJA ÓSATT?


Rétt áður en hlé var gert á þingstörfum fyrir jól var gerð breyting á eftirlaunalögunum svokölluðu.  Viðhaft  var nafnakall um þann kost að halda með þingmenn, ráðherra og æðstu embættismenn, sem svo eru nefndir, inn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en frá 1997 hafa allir nýráðnir starfsmenn hjá ríkinu sem aðild eiga að heildarsamtökum opinberra starfsmanna, fengið aðild að þeirri deild.  Ég óskaði eftir nafnakallinu svo öllum yrði ljós afstaða sérhvers þingmanns til málsins.
Sú afstaða kom í ljós. Sjá hér: http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=40125
Eins og fram kemur greiddi Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar atkvæði gegn því að sérréttindi þingmanna, ráðherra og „æðstu embættismanna" yrðu afnumin og þeir settir undir sama fyrirkomulag og almennt gildir um starfsmenn ríkisins.
Því nefni ég Árna Pál sérstaklega að ég sá heimasíðuskrif hans þar sem hann dregur upp allt aðra mynd og segir í ofanálag að Vinstrihreyfingin grænt framboð hafi beitt sér gegn afnámi sérréttindalaganna:

„Við höfum undanfarin fimm ár lagt höfuðáherslu á að afnema eftirlaunaforréttindin. Við höfum þurft samkomulag við aðra flokka til þess. Í gær fengum við þau að mestu afnumin og gott betur - við afnámum gamalt forréttindakerfi sem heimilaði töku eftirlauna samhliða fullri vinnu - þrátt fyrir andstöðu VG. 
Um áratugaskeið hafa stjórnmálamenn getað fengið starf hjá ríkinu eftir starfslok á Alþingi og fengið eftirlaun, samhliða nýju starfi. Þetta hefur leitt til eins ógeðfelldasta sérkennis á íslenskri stjórnsýslu: Óeðlilegs þrýstings á pólitískar ráðningar hjá hinu opinbera. Við afnámum þessar tvöföldu greiðslur frá hinu opinbera. VG lagðist gegn afnámi þessarar grunnforsendu pólitískrar spillingar og klíkukerfis."

Í breytingartillögum þingmanna VG, Framsóknarflokks og Frjálslyndra var lagt til að hvorki yrði hægt að njóta lífeyrisréttar og taka laun hjá ríki eða öðrum launagreiðendum í senn. Tillagan gekk með öðrum orðum lengra í skerðingarátt en tillagan sem samþykkt var. Engu að síður heldur Árni Páll fram þessum ósannindum. Hvað veldur? Einnig er það ósatt að til að breyta lögunum þyrfti samkomulag allra flokka.  Fyrir þinginu lágu tillögur sem sérhver þingmaður gat tekið afstöðu til. Þar á meðal Árni Páll Árnason. Hann nýtti sér ekki rétt sinn til að afnema sérréttindin.  Sannast sagna er mér það ráðgáta hvers vegna Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar segir ósatt um eigin afstöðu og um afstöðu þingmanna VG, sem nýlega lögðu fram frumvarp um afnám laganna og stóðu síðan að breytingartillögum við stjórnarfrumvarp þar sem einnig var lagt til að sérréttindin yrðu afnumin sem áður segir. 

Skyldi þetta vera einsdæmi í málflutningi þingmannsins?  

Hér má sjá slóðir á alla umræðuna: https://www.ogmundur.is/is/greinar/afram-serrettindi-thingmanna-og-aedstu-embaettismanna