„SAGNFRÆÐI" BIRGIS DÝRFJÖRÐ

Birtist í Morgunblaðinu 14.11.08
MBL - LogoSá ágæti maður, Birgir Dýrfjörð, skrifar grein í Mogunblaðið 3. nóvember sl. undir fyrirsögninni Sjálfsafneitun Vinstri-grænna. Undir grein sinni titlar Birgir sig sem stjórnarmann í flokksstjórn Samfylkingarinnar. Í greininni gerir Birgir því skóna að hið umdeilda eftirlaunafrumvarp hafi í reynd verið flutt "fyrir hönd Vinstri-grænna", nokkuð sem ekki dugi að afneita.
Þetta er ósatt. Sem formaður þingflokks sagði ég eftirfarandi þegar frumvarpið kom til lokaafgreiðslu 13. desember 2003 : "Af hálfu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur komið skýr afstaða til frumvarpsins og hefur það verið harðlega gagnrýnt á ýmsum forsendum. Eindregin andstaða úr röðum þingflokks VG hefur verið öllum málsaðilum ljós frá upphafi og því ósatt að um samkomulag hafi verið að ræða. Ég tel að með þessu lagafrumvarpi sé verið að treysta misrétti í sessi og það er stefnt í afturhaldsátt. Ég harma þá niðurstöðu."

Varhugavert eða forkastanlegt?
Birgir Dýrfjörð segir reyndar í grein sinni um afstöðu mína: "Hér er skylt að geta að við fyrstu umræðu taldi Ögmundur Jónasson frumvarpið geta verið varhugavert."
Ekki þykir mér þetta nákvæm frásögn, eða hvað finnst lesendum Morgunblaðsins þegar haft er í huga hvað ég í reynd sagði við fyrstu umræðu þingmálsins 11. desember 2003, sem Birgir Dýrfjörð vísar til:
"...Í því frv. sem hér liggur fyrir felst yfirlýsing um það að í stað þess að halda inn í framtíðina er stefnan tekin í afturhaldsátt. Þetta frv. er tímaskekkja, minjar um kerfi misskiptingar og sérréttinda. Í ríkjum austan tjalds birtust forréttindi valdastéttanna m.a. í svokölluðum dollarabúðum. Þar versluðu menn á sérkjörum. Þetta frv. er dollarabúð íslenska lífeyriskerfisins....Ég spyr: Nú, þegar við endurskoðum lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra, hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að halda með þennan hóp og reyndar alla strolluna sem nú er að finna í einni spyrðu, alþingismenn, ráðherra og hæstaréttardómara, inn í lífeyrissjóði sem þessum aðilum standa opnir? Hvers vegna getur þetta fólk ekki verið á lífeyriskjörum sambærilegum þeim sem aðrir búa við? Hvað er svona sérstakt við það að vera þingmaður? Hvað er svona sérstakt við það að vera ráðherra? Hvað er svona sérstakt við það að vera hæstaréttardómari? Það er ekkert sérstakt við það annað en að þessum hópum eru sköpuð sérréttindi sem engin rök eru fyrir. Ávinnsla lífeyrisréttinda samkvæmt frv. er færð í samræmt hlutfall. Það hlutfall er hins vegar hærra en gerist almennt í lífeyrissjóðum landsins. Réttur til töku eftirlauna skapast einnig fyrr en almennt gerist án þess að fyrir því séu nokkur rök sem ég get tekið mark á...Varðandi breytingar á launakjörum samkvæmt frv. vil ég lýsa tvennu yfir. Ég tel að menn geti ekki bæði sleppt og haldið, annars vegar falið Kjaradómi að ákvarða kjör þingmanna og ráðherra en verið síðan stöðugt með hönd Alþingis á lofti til að smyrja þar ofan á. Það hefur verið gert með óheyrilegu álagi á kaup ráðherra, 80% ofan á þingfararkaupið, það hefur verið gert með álagi á nefndar- og þingflokksformenn upp á 15% sem nú stendur til að hækka í 20%, að ógleymdum 40 þús. kr. starfskostnaðinum sem ákveðinn var á sínum tíma, upphæð sem nú er orðin talsvert hærri, upphæð sem alþingismenn samþykktu að þeim væri heimilt að taka sem laun, í fyrstu skattlaus - það var síðan lagað - en þessi greiðsla, starfskostnaður tekinn út í formi launa, er nokkuð sem mér hefur aldrei fundist standast, hvað þá með formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu sem nú eiga að fá 50% álag ofan á þingfararkaupið...Það má ekki gerast að þjóðin þurfi að óttast myrkrið þegar Alþingi Íslendinga er annars vegar, að í skjóli myrkurs sé flýtifrumvörpum hraðað í gegnum Alþingi eins og nú virðist eiga að gerast...í svartasta skammdeginu, nú rétt fyrir jólin...Ég mun greiða atkvæði gegn frumvarpinu."

Að fá að njóta sannmælis
Út af þessum orðum mínum leggur Birgir Dýrfjörð á þann veg að ég hafi talið að frumvarpið " geti verið varhugavert". Skyldi lesendum finnast þetta vera góð sagnfræði? Er til of mikils mælst að biðja um að fá að njóta sannmælis?

Ögmundur Jónasson,
formaður þingflokks VG  

Fréttabréf