Fara í efni

INGIBJÖRG OG GEIR BRUGÐUST


Er ekki rétt að við förum að beina sjónum okkar að þeim sem bera hina pólitísku ábyrgð á efnahagshruninu - mestu óförum íslensku þjóðarinnar í manna minnum? Að þeim sem skópu lögin, klöppuðu upp stemninguna, mærðu ruglið, voru meðvirk í braskinu og beinlínis blekktu þjóðina?

Rauða spjaldið hunsað

Ekki svo að skilja að ábyrgð stjórnenda bankanna og fjástingargamblaranna sjálfra eigi að liggja á milli hluta. Eða eftirlitstofnananna. Þar hljóta sjónir að beinast að Seðlabanka en ekki síður að Fjármálaeftirlitinu, sem hefur það lögformlega hlutverk að fylgjast með því hvað bankarnir eru að aðhafast hverju sinni. Bankastjórarar Seðlabanaka fullyrða að aftur og ítrekað hafi bönkum og stjórnvöldum verið sýnt rauða spjaldið. Ef svo er, þá er sinnuleysi og þögn stjórnvalda grafalvarleg.

Bullandi meðvirk heima og heiman

Reyndar er það ekki alveg rétt að stjórnvöld hafi ekkert aðhafst. Þau Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörg Sólrún, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, voru bullandi meðvirk. Þau héldu út í heim með útrásarvíkingunum til að tala bankana upp og segja almenningi utanlands þau ósannindi að það væri alveg óhætt að treysta áfram íslenskum bönkum fyrir sparifé því hjá þeim væri allt í himnalagi!
Á fundi í Kaupmannahöfn 11. mars sl. þar sem Ingibjörg Sólrún hélt erindi á pepp-fundi með Sigurði Einarssyni, bankastjóra KB banka og fleirum sagði hún: „Nogle påstår, at bankerne er blevet for store for landet og at den nuværende turbulens vil medføre en alvorlig økonomisk krise i det islandske samfund. Efter min mening er denne frygt helt ubegrundet." Já, til eru þeir sem segi að bankarnir séu orðnir of stórir og að við kunnum að lenda í krísu. Sá  ótti sé með öllu tilhæfulaus.
Tveimur dögum síðar var Geir Haarde  í New York ásamt Jónir Ásgeiri Jóhannessyni og fleiri íslenskum fjárfestingarbarónum að sannfæra heiminn um að engar brotalamir væri að finna í íslensku bankakerfi.

Ekki einu sinni leynifundur

Þetta gerðist á sama tíma og Icesave lotteríið var að magnast upp í hæstu hæðir! Með íslensku þjóðina í bakábyrgð!!!
Ríkisstjórnin er mikið gefin fyrir leynifundi. Hefði verið til of mikils mælst að Alþingi Íslendinga hefði á þessum tíma verið upplýst um stöðu mála? - Þó ekki væri nema í leyni? Ekki síst þegar haft er í huga að íslenskt samfélag eins og það lagði sig var undir.

Ríkisstjórnin segi af sér

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og ríkisstjórnin í heild sinni brugðust þjóðinni. Af þeim sökum ber þeim að sjálfsögðu að víkja úr Stjórnarráðinu. Sú krafa er að stigmagnast að efna beri til nýrra kosninga og að því fyrr sem það yrði gert, þeim mun betra. Þessu er ég sammála.