Fara í efni

FIMM STAÐHÆFINGAR GEIRS


Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti stefnuræðu ríkisstjórnarinnar á Alþingi í gær. Ræðan gerði margan manninn án efa hugsi.

Geir sagði m.a. um hremmingar af völdum fjármálakreppunnar:

„Fall þeirra sem hæst fljúga er mest..."  
Er það svo?
Maður sem átti hundrað milljarða en á nú tuttugu og fimm, tapar vissulega fleiri krónum en sá sem missir þriggja herbergja íbúðina sína. Fallið er afdrifaríkara fyrir hinn síðarnefnda og því meira.

„Öll eru á sama báti, íslensku bankarnir, fólkið og fyrirtækin..."
Er það svo?
Þessir aðilar hafa vissulega ekki verið á sama báti. Gangavörðurinn í barnaskólanum hefur ekki verið á sama báti og bankastjórinn sem lætur borga sér milljarð í stafslokasamning. Á gangavörðurinn nú að gangast í ábyrgð fyrir skuldbindingar milljarðamæringsins? Eru þessir tveir komnir á sama bátinn? Er þetta svona einalt?

„Höldum áfram á þeirri braut sem við höfum markað okkur á undanförnum árum."
Er það virkilega meiningin?
Ríkisstjórnin segir að nú megi alls ekki benda á sökudólga, bara hugsa um framtíðina. En eru vítin ekki til að varast þau? Og ef svo er þurfum við þá ekki að þekkja vítin?

„Ríkið hefur dregið sig út úr atvinnulífinu til hagsbóta fyrir heildina."
Er það svo?
Hvað skyldi Geir vera að hugsa um sérstaklega? Landssímann? Bankana? Er þetta ekki nokkuð hraustlega mælt á þessari stundu?

„Við viljum að verkin tali."
Það viljum við líka. En hvaða verk Geir?