GJÖF ÞJÓÐARHREYFINGARINNAR


Einsog fram hefur komið í fréttum hefur þjóðarhreyfingin fær öllum þingmönnum að gjöf bókina Animal Farm, Dýrabæ, eftir George Orwell.  Þessi bók kom út árið 1945 og hafði þá þegar geysileg áhrif. Haft hefur verið á orði að þessi bók Orwells hafi jafnvel haft meiri áhrif en nokkur önnur bók sem út kom á 20. öldinni, Á bókarkápu útgáfunnar sem Þjóðarhreyfingin færði okkur þingmönnum segir að bókin eigi sannarlega erindi við 21. öldina einnig: " Ekki síst er sagan holl lesning stjórnmálamönnum, þeim sem fara með vald í umboði annarra."
Tilefni gjafarinnar er að minna alþingismenn á að nú sé lag að afnema eftirlaunalögin frá árinu 2003 en þá lögfesti Alþingi sérréttindi þingmönnum, ráðherrum og æðstu embættismönnum til handa. Þingmenn misnotuðu þá það vald sem þeim hafði verið fengið í hendur - löggjafarvaldið - til þess að hygla sjálfum sér. Þar með höfðu þeir samsamað sig yfirstéttarsvínunum í Dýrabæ  sem réttlættu yfirgang sinn með því að staðhæfa: " Öll dýr eru jöfn. En sum dýr eru jafnari ern önnur."
Ég færi Þjóðarhreyfingunni þakkir fyrir gjöfina og þarfar ábendingar.

Fréttabréf