ALLT UPP Á BORÐIÐ - ALLTAF

Birtist í DV 10.09.08.
DVDV hefur verið ötulast íslenskra fjölmiðla að krefjast gagnsæis í samskiptum stjórnmálamanna. Fyrir þetta ber að þakka. Ein slík frétt var í blaðinu í gær. Hún fjallar um dúklagningafyrirtæki Þorleifs Gunnlaugssonar, borgarfulltrúa, og viðskipti þess við Reykjavíkurborg  á undanförnum árum, en áður en Þorleifur varð borgarfulltrúi á síðasta ári vann hann eingöngu við dúklagningar. Fram kemur að fyrirtæki Þorleifs hafi á liðnum árum fengið allmörg verk hjá borginni enda hafi hann hafi boðið lægstu og hagstæðustu tilboðin. Við þetta er ekkert að athuga. Það er ekki bannað að vera dúklagningameistari, ekki heldur að reka fyrirtæki sem annast dúklagnir. Þá er ekkert athugavert við að bjóða í verk hjá borginni sem koma til útboðs. Öðru máli gegnir ef menn misnota aðstöðu sína í stjórnmálum í þágu sína og sinna. Það er kallað einkavinavæðing og er verra en flest annað því hún byggir á því að misnota völd og áhrif sem fólki er treyst fyrir.

Skörun stjórnmála og atvinnuhagsmuna

Þegar skarast  stjórnmál og atvinnustarfsemi þá viljum við að allt sé uppi á borði. Ekki til að hengja viðkomandi stjórnmálamenn upp, heldur líka til að hreinsa þá af röngum ásökunum ef um slíkt er að ræða. Þess vegna eiga allar upplýsingar að vera opinberar hvað varðar fjárhags- og hagsmunatengsl í stjórnmálum, eins og VG hefur ítrekað lagt til. Í fréttaumfjöllun DV kemur í ljós að ekkert gagnrýnivert er við samninga þessa ágæta borgarfulltrúa og Reykjavíkurborgar að athuga þótt jafnframt komi fram í umfjölluninni að til séu þeir sem gjarnan vilji láta líta svo út. Við því er aðeins eitt svar. Gagnsæi, að allt sé uppi á borði.
Sérstaklega þurfa menn að vera á varðbergi þegar um það er að ræða að bæjar- eða borgarfulltrúar eða þá þingmenn, vinna að því að koma verkefnum sem verið hafa í samfélagslegri þjónustu út á markaðstorgið þar sem þeir sjálfir eða einstaklingar og fyrirtæki þeim tengd bíða með vatnið í munninum að hremma bitana.

Vörn gegn dylgjum

Fram hefur komið, m.a. í DV, að slík hagsmunatengsl hafa verið á milli borgarfulltrúa í Reykjavík og þingmanna á Alþingi annars vegar við einkafyrirtæki á heilbrigðismarkaði hins vegar. Þegar vakin hefur verið athygli á þessu hefur það valdið tilfinningaþrungnum viðbrögðum. Jafnvel hefur verið talað um dylgjur og rógburð. Dylgjur er hugtak sem á við um rangfærslur eða þegar gefið er í skyn að eitthvað sé bogið við mál án þess að svo sé í raun. Auðvitað getur stundum verið slíku til að dreifa. Hvernig er hægt að verjast slíku? Svarið er alltaf á sömu lund: Gagnsæi, allar upplýsingar upp á borðið! Þá geta þeir sem bornir eru röngum sökum eða dylgjað er um, hreinsað sig af röngum áburði ef því er að skipta eða þá að umfjöllun í fjölmiðlum leiðir einfaldlega í ljós að allt er með felldu.
Ögmundur Jónasson, þingmaður

Fréttabréf