Fara í efni

UPPSKERAN Í HÚS HJÁ LITLU, LITLU FRAMSÓKN


Ég sem hélt að Framsókn væri búin að taka ákvörðun um að verða hugsjónaflokkur í anda þess sem Guðni , formaður, hefur boðað; að barist yrði í anda hugsjóna og stefnumarkmiða sem best gerist en ekki hirt um sporslur og bitlinga.
En viti menn.  Framsóknarflokkurinn, sem bundist hafði heitmælum við VG og Samfylkingu í Reykjavík um að mynda saman meirihluta í borginni ef Sjálfstæðisflokkur og Ólafur F. gæfust upp, stökk beint  í fangið á Íhaldinu strax og færi gafst. Flokknum voru boðnir bitlingar og þeir reyndust eftirsóknarverðari en allar hugsjónir. Þær gleymdust um leið og farið var að tala um launaðar nefndir og aðstöðu til að ívilna vel borgandi gæðingum. Aumingja vesalings litla Framsókn.  Ekki er þetta eftirsóknarvert hlutskipti.
Guðlaugur Sverrisson heitir hann, nýi  formaðurinn í  stjórn Orkuveitunnar. Mér er sagt að einhvers staðar á útvarpsstöð hafi hann í dag heyrst segja að hann væri ekkert sérstaklega mikið inni í orkumálum. Það skiptir greinilega engu máli, nóg að vera vinur Óskars framsóknarmanns.
Eftir kosningarnar 2006 efndu Framsóknarmenn til uppskeruhátíðar. Þeir fögnuðu að vísu fáum atkvæðum í Reykjavík, en mögulegum aðgöngumiða að kjötkötlum borgarinnar. Á uppskeruhátíð Framsóknar sem haldin var hjá Siv Friðleifsdóttur, þingmanni flokksins, voru þeir gleiðbrosandi, Óskar framsóknarmaður og Guðlaugur framsóknarmaður. Nú er uppskeran, sem Siv segir frá á heimasíðu sinni, komin í hús. Óskar framsóknarmaður orðinn formaður í aðskiljanlegum nefndum og Guðlaugur framsóknarmaður stjórnarformaður í OR.
Eflaust er Framsóknarflokkurinn ánægður. Svo er hitt að spyrja yfir hverju glaðst er. Það þarf mikla smæð til að gleðjast yfir sviknum loforðum.  Með framferði sínu í Reykjavík er Framsóknarflokkurinn að minna okkur á að fyrir því eru engin takmörk hve smár sá stjórnmálaflokkur getur orðið.
Sjá hér frá uppskeruhátíð Sivjar:

http://www.siv.is/i_mynd/myndir.lasso?id=8671