Fara í efni

ÞAU BERA ÖLL ÁBYRGÐ


Tilkynnt var í dag að Magnús Pétursson, forstjóri Landspítalans  og Jóhannes Gunnarsson,  sem gegnt hefur lykilhlutverki í stjórnsýslunni, muni láta af störfum. Þetta mun vera „sameiginleg ákvörðun" þeirra og heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ég hafði haft um þetta ávæning í gær og skýrir það pistil minn hér á síðunni um hin myrku stjórnmál Sjálfstæðisflokksins. Þar sagði ég að nú stæði til að ryðja úr vegi öllum þeim áhrifamönnum í stjórnsýslunni sem grunaðir væru um að hafa félagslegar taugar. Þetta skyldi gert til að ryðja brautina fyrir pólitíska handlangara einkavæðingarinnar.
Ákvarðanir sínar upplýsir ráðherrann ekki um fyrr en eftir að þinghlé hefst. Eins gott að þurfa ekki að ræða þessi mál augliti til auglitis við gagnrýnendur sína.
Nú veit ég ekkert hvar í flokki þessir tveir menn eru, gætu þess vegna verið stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar. Innan allra flokka er að finna fólk með félagslegar áherslur. Hinar pólitísku hreinsanir sem nú eru greinilega hafnar byggja ekki á flokksskírteinum heldur skoðunum á einkavæðingunni .
Aumt er hlutskipti Þögla félagans, Silent partner, en svo er Samfylkingin nú nefnd í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Það er vegna þess að hún þegir yfir öllum ósómanum. Ef Samfylkingin lætur brottrekstur þessara manna yfir sig ganga þá verður ekki annað sagt en að hún sé vel komin að þessari nafngift. Vesalt er hlutskipti þögla félagans. En þögn Samfylkingarinnar breytir því ekki að á þessum „hreinsunum" í stjórnsýslu heilbrigðiskerfisins ber hún ábyrgð, ekkert síður en  þeir sem stýra aðförinni.