BÍRÆFNI


Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs,  gekkst fyrir því að forsætisráðuneytið svaraði því hve miklum fjármunum hefði verið ráðstafað úr ríkissjóði á hálfu ári í aðdraganda síðustu kosninga, frá því í desemberbyrjun 2006 og fram að kosningum í maí vorið 2007. Skýrsla ráðuneytisins birtist í dag. Þar kom í ljós að á þessu tímabili var ráðstafað úr ríkissjóði litlum 14 milljörðum króna fram í tímann - fyrir utan yfirlýsingarnar og loforðin sem aldrei fóru á blað! Við höfðum sum á orði þegar þessu vatt fram að ráðuneytunum  hefði verið breytt í kosningaskrifstofur ríkisstjórnarflokkanna. Þar væri útdeilt fjármunum ráðherrum og flokkum þeirra til framdráttar í kosningabaráttunni. 
Hver man ekki eftir öllum borðaklippingunum, fréttamannafundunum og yfirlýsingunum á þingi?
Vinstrihreyfingin grænt framboð lagði í kjölfar kosninganna  til að tekið verði fyrir svona ráðslag með lögum.
Óneitanlega gerist áleitin sú hugsun að siðleysi í íslenskum stjórnmálum kunni að vera meira en víða annars staðar. Hvað á annars að kalla það þegar stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar kaupa sig til áhrifa einsog þarna var gert?  Þegar menn nota eigin sjóði til slíks er talað um mútur. En hvað ef notaðir eru okkar peningar, peningar skattgreiðenda til að slá ryki í augu okkar eigenda fjárins?! Spillingu? Ég held ég myndi kalla þetta bíræfni vegna þess að þeir sem höguðu sér með þessum hætti reiknuðu með því að komast upp með það gagnvart kjósendum. Mun það gerast aftur?

Í skýrslunni kemur fram hve ráðherrar færðust í aukana síðustu daga fyrir kosningar, lofuðu út og suður og hétu fjárveitingum langt fram í tímann. Hér er skýrslan: http://www.althingi.is/altext/135/s/0593.html 

Fréttabréf