Fara í efni

STÓR EN JAFNFRAMT SMÁ

Birtist í 24 stundum 05.01.08.
Tveir alþingismenn kvöddu sér hljóðs í síðustu viku til þess að ræða sérstaklega um stjórn og stjórnarandstöðu. Annar er þingmaður Samfylkingarinnar og heitir Helgi Hjörvar. Hinn er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og heitir Geir H. Haarde. Annar skrifaði grein í 24 Stundir, hinn lét ljós sitt skína í maraþonviðtali á Rás 2.
Báðir voru þeir óskaplega ánægðir með ríkisstjórnina sína og báðir lýstu óánægju með stjórnarandstöðuna. Hvor á sinn hátt þó.

Helgi og  „Nýi Sjálfstæðisflokkurinn"
Fyrst að Helga þætti Hjörvars. Helgi sagði að nú væri búið að sameina jafnaðarmenn á Íslandi innan vébanda Samfylkingar, þeir sætu víða að völdum þar á meðal í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, það er að segja „Nýja Sjálfstæðisflokknum" , sem Helgi kallar svo.  Samfylkingin hefði átt „á brattann að sækja", í  umhverfismálum, en síðan hefðu menn fundið upp nýja stefnu, sem héti Fagra Ísland og horfði nú allt til betri vegar. Sú góða ríkisstjórn sem nú stjórnaði landinu hugsaði fyrst og fremst um hag aldraðra, öryrkja og barnafólks, auk að sjálfsögðu fyrirtækjanna. Aðeins eitt virtist vera aðfinnsluvert að mati Helga og það er hve léleg stjórnarandstaðan væri.  Stjórnarandstöðuflokkarnir væru alltaf að skammast innbyrðis: „ Á meðan skortir ríkisstjórnina eðlilegt aðhald."

Geir þreyttur
Síðan var það Geir H. Haarde. Að hans mati tekst ríkisstjórninni bærilega vel að stýra landinu. Samstaða og eindrægni sé með ráðherrum og ef ekki væri fyrir verðhækkanir í útlöndum værum við í góðum málum.  En svo er það stjórnarandstaðan. Um hana vildi Geir H. Haarde ekki alhæfa. Honum fannst hins vegar ástæða til, forsætisráðherranum okkar, að fagna því sérstaklega að tekist hafi að ná samkomulagi við „fjóra af fimm þinflokksformönnum"  um breytt þingskaparlög.  Með nýjum lögum værum við vonandi laus við „hamslausan málflutning" og „málæði einstakra manna". Nýju lögin væru miklu betri og ætti Sturla Böðvarsson forseti Alþingis lof skilið fyrir að keyra  þau í gegnum þingið.  Geir kvaðst hafa talað fyrir fjárlagafrumvarpi átta sinnum. Gagnrýnin hefði  bara verið „stagl"  og hann trúði fréttamanni fyrir því að sér hafi þótt þetta afar „þreytandi".
Nú á að sjálfsögðu eftir að koma í ljós hversu þreyttur forsætisráðherrann kemur til með að verða  við umræður á Alþingi í framtíðinni en hitt verð ég að segja, að dapurlega smá í sniðum eru ummæli þessara tveggja alþingismanna.  Helgi Hjörvar leyfir sér að þurrka út af hinu pólitíska landakorti drjúgan hluta þess fólks sem harðast berst fyrir náttúruvernd og jöfnuði í landinu. Hér á ég að sjálfsögðu við Vinstrihreyfinguna grænt framboð sem í sumum málum náði ágætlega saman með Samfylkingunni , jafnaðarfólki þar, og þá einkum þegar velferðarmál bar á góma. Að sjálfsögðu þykir okkur ekki uppörvandi að í fyrstu fjárlögum Samfylkingarinnar skuli áætlað að skerða vaxtabætur og barnabætur að raungildi! Þá er ljóst að ýmsum helstu stofnunum á sviði heilbrigðismála verður gert að skera niður og skerða þjónustu sína eins og rækilega var bent á í „staglinu" við afgreiðslu fjárlaga. 

Áhyggjur jafnaðarfólks
Það sem félagslega þenkjandi fólk í landinu hefur áhyggjur af er að Samfylkingin skuli hafa afhent einkavæðingarsinnuðum Sjálfstæðisflokki heilbrigðisráðuneytið og leyfi honum  nú að fara þar sínu fram, reyni  síðan að skjóta sér á bak við stjórnarandstöðu sem ekki veiti  „eðlilegt aðhald"!  Þetta kalla ég ábyrgðarleysi stuðningsmanns ríkisstjórnarinnar.
Geir H. Haarde forsætisráðherra hefur setið á þingi all lengi og verið í forystu Sjálfstæðisflokksins allar götur frá því sá flokkur tók við stjórnartaumunum vorið 1991, fyrst með stuðningi Alþýðuflokks, þá Framsóknarflokks og nú Samfylkingar. Á þessu tímabili hefur vissulega komið til mikilla deilna á Alþingi og Geir því þurft að hlýða á það sem hann flokkar undir  „hamslausan" málflutning, svo sem þegar deilt var um það hvort  EES samningurinn stæðist stjórnarskrá Íslands, skerðingu á barnabótum á fyrri hluta tíunda áratugarins, sjúklingagjöldin og  þá stefnu að innræta sjúku fólki kostnaðarvitund, sölu almannaeigna, einkavinavæðingu bankanna, Kárahnjúkavirkjun, einkarekinn gagnagrunn á heilbrigðissviði, hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, öryrkjamálið, fjölmiðlafrumvarpið og vatnalögin. Og svo hafa fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins náttúrlega  þurft að sitja undir „stagli" um fjárlögin þegar atvinnuleysisbætur, ellilífeyrir og framlag til velferðarþjónustunnar hafa verið til umræðu!

Hunsar stærsta stjórnarandstöðuflokkinn
Í öllum þessum málum hefur VG, frá því sá flokkur varð til, og áður liðsmenn úr þeim ranni staðið í forystu á þingi til varnar lýðræði, jöfnuði og verndun landsins. Nú leyfir forsætisráðherrann sér að fagna því að gert hafi verið samkomulag sem þessi stærsti stjórnarandstöðuflokkur á Alþingi telur hefta sig í því verkefni sem honum er á herðar lagt samkvæmt stjórnarskránni; að veita ríkisstjórninni eðlilegt aðhald. Þetta þykir Geir H. Haarde vera sérstakt fagnaðarefni.
 Ríkisstjórnin kann að styðjast við stóran meirihluta á þingi. En hún sýnir jafnframt í verkum sínum og málflutningi að hún er ekki stór í sniðum. Á þann mælikvarða er hún smá. Agnarsmá.