Fara í efni

FORSETI ALÞINGIS LEIÐRÉTTUR

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 21.01.08.
Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, skrifar grein í Morgunblaðið, 10. janúar sl. um ný þingskapalög. Því miður er þessi grein slík afbökun á veruleikanum að ekki verður undan því vikist að koma nokkrum leiðréttingum við. Forseti Alþingis vísar til sögunnar og deilna sem risið hafa um breytingar á þingskapalögum í tímans rás og fer allt aftur á tíunda áratug síðustu aldar. Ekki fjölyrðir hann um þær breytingar sem gerðar hafa verið á þingskapalögunum frá þessum tíma, hvað þá að hann fjalli um þær miklu breytingar sem orðið hafa á störfum þingsins á þessu tímabili og þær hefðir sem mótast hafa í sátt en án lagabreytinga.

Tillögur VG um markvissara þinghald

Skilja mætti á grein Sturlu Böðvarssonar að hann einn hafi haft áhuga á breyttum þingsköpum. Staðreyndin er sú að flestir þingflokkar hafa sett fram tillögur í þá veru. Sumar þeirra hafa náð fram að ganga en aðrar ekki. Þannig hefur þingflokkur VG t.d. ítrekað lagt fram hugmyndir um að efla fagleg vinnubrögð á þinginu, gera þinghaldið markvissara, opna störf þess meira en nú er, lengja þingtímann, færa næturfundi inn á dagtímann og stytta ræðutíma í tengslum við slíkar breytingar. Stigið var skref í þessa átt með nýjum þingskapalögum en að okkar mati um of á forsendum stjórnarmeirihlutans. Þá höfum við sett fram tillögur um að stjórnarandstaða verði virkari í stjórn þingsins, t.d. með því að stjórnarandstaða fengi hlutdeild í verkstjórn þingnefnda, forseti Alþingis kæmi úr hennar röðum en að lágmarki kæmi fyrsti varaforseti frá stjórnarandstöðu. Öllu slíku var alfarið hafnað.
Fyrir þessu hef ég gert grein í sölum Alþingis og rakið þar gang mála allar götur frá því ég settist fyrst við borð þingflokksformanna árið 1999. Þekki ég þessar umræður frá fyrstu hendi enda með lengsta reynslu í þessu efni allra þeirra sem nú sitja við borð þingflokksformanna og forseta þingsins. Í ræðu við afgreiðslu þingskapafrumvarpsins fyrir jól gerði ég rækilega grein fyrir hinni svokölluðu „miklu vinnu" og meintu „samningaviðræðum" sem fram áttu að hafa farið síðastliðið haust. Ef framganga forseta þingsins Sturlu Böðvarssonar á að flokkast undir samningaviðræður þá er það eitthvað alveg nýtt í mínum reynsluheimi.

Ekkert samkomulag, engir peningar!

Sannast sagna rak mig í rogastans við eftirfarandi staðhæfingu í Morgunblaðsgrein Sturlu Böðvarssonar: „Við lok þeirrar miklu vinnu reyndust fulltrúar VG ekki tilbúnir að fallast á þau sjónarmið sem ég hafði náð samkomulagi um við aðra og höfnuðu því miður samstarfi um málið nema þeirra sjónarmið um ótakmarkaðan ræðutíma næði fram að ganga. Auk þess vildu þeir slíta sundur breytingar á þingsköpum og bætta starfsaðstöðu þingmanna."
Það er vissulega rétt að þingflokkur VG vildi aðgreina breytingar á þingskapalögum annars vegar og peningatilboð til stjórnarandstöðuflokkanna til mannaráðninga, fleiri utanlandsferða og annars af því tagi, hins vegar. Forseti þingsins var afdráttarlaus hvað þetta snertir: Ekkert samkomulag, engir peningar!
Okkur var gert alveg ljóst að ef við værum ekki reiðubúin til þess að fallast á kröfur forseta og meirihlutans um breytingar á þingskapalögum yrði heldur ekki um að ræða aukið fjárframlag til mannaráðninga og annarra verkefna til að bæta hag stjórnarandstöðu.
Varðandi hitt að VG hafi ekki léð máls á því að stytta ræðutíma er það einfaldlega ósatt. Það kom rækilega fram áður en þingmálið var lagt fram og við umræðu um frumvarpið að VG studdi breytingar sem fólu í sér verulega styttingu á ræðutíma svo og á ýmsum öðrum þáttum sem við töldum vera til þess fallna að gera þinghaldið markvissara.
Við vildum hins vegar skoða málin heildstætt og ekki undir neinum kringumstæðum veikja stjórnarandstöðuna í því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt Stjórnarskrá Íslands, að stuðla að vandaðri lagasetningu og veita framkvæmdavaldi og stjórnarmeirihluta aðhald.

Grátbroslegar yfirlýsingar

Í upphafi þings nú í vikunni hefur forseti Alþingis og einstaka þingmenn úr „þingskapameirihlutanum" sem myndaðist fyrir jól, verið með hástemmdar yfirlýsingar um hve mjög breytingarnar sem gerðar voru á þingskapalögum, hefðu verið til góðs, það mætti þegar sjá á öllu vinnulagi þingsins! Athygli vekur að auk Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, hafa fyrrverandi ráðherrar, sem átt hafa erfiðan málstað að verja á Alþingi, gengið sérstaklega fram fyrir skjöldu síðustu daga til að dásama hvílík himnasending nýja þingskapafrumvarpið er.
Þetta er nánast grátbroslegt á að hlýða í ljósi þess að enn er ekkert farið að reyna á hin umdeildu ákvæði þingskapalaganna sem færa framkvæmdavaldinu og meirihlutanum sem það styðst við á Alþingi aukin völd og áhrif á kostnað stjórnarandstöðu.