Fara í efni

SÖGULEG ÞINGLOK


Þinglokin voru söguleg að því leyti að í fyrsta sinn frá því ég kom á Alþingi um miðjan tíunda áratuginn neitar stjórnarmeirihlutinn að taka nokkuð tillit til stjórnarandstöðu. Þannig hafði VG beint þeim tilmælum til oddvita ríkisstjórnarflokkanna - og þá fyrst og fremst til forsætisráðherrans - að til endurskoðunar yrði sú ákvörðun að heimila heilbrigðisráðherra  að ráða til starfa  forstjóra nýrrar söluskrifstofu heilbrigðismála á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögum um almannatryggingar. Nokkuð sem við kölluðum smyggl-góss í því frumvarpi. Boðað er að lagafrumvarp um þessa nýju stofnun komi fram á þingi með vorinu. En hvers vegna ekki bíða eftir því, taka um það umræðu á þingi og ráða síðan forstjóra  og aðra í áhöfn í stað þess að gefa einkavæðingar-ráðherrum ríkisstjórnarinnar opinn tékka?
Forsætisráðherra lét ekki svo lítið að bjóða upp á fund um málið heldur kom að minni beiðni í þingsal undir þinglokin að svara því til hvers vegna hann ekki virti stjórnarandstöðu viðlits um þetta mál. Ekki var mikið á svörum forsætisráðherra  að græða. Hann fjallaði fyrst og fremst um meinta útúrsnúninga mína um þetta málefni en vék sér frá efnislegri umræðu um málið.
Annars voru þinglokin ekki síst söguleg fyrir þær sakir að stjórnarandstaðan fékk fyrirheit um að aðstaða hennar yrði styrkt í þinginu með auknu fjárframlagi gegn því að ný þingskapalög yrðu samþykkt.  þetta samþykktu Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn ásamt hinu pólitíska kærustupari,  Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. VG var þessu andvígt en á þeim forsendum sem þingmenn flokksins gerðu grein fyrir. Við þriðju umræðu sagði ég eftirfarandi (þegar ræðan er fram komin í rituðu máli verður hún sett á síðuna) eins og hlusta má á hér: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20071214T173526