GOTT HJÁ VALGERÐI

Birtist í Fréttablaðinu 2.11.07
Valgerður Bjarnadóttir er komin inn á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Samfylkinguna. Hún er ein þeirra sem gagnrýnt hafa Eftirlaunafrumvarpið illræmda sem skammtaði  æðstu embættismönnum ríkisins, alþingismönnum og síðast en ekki síst ráðherrum lífeyrisréttindi langt umfram það sem almenningur í landinu býr við. Þessi lög voru gagnrýnd harðlega á sínum tíma og á Alþingi fékk frumvarpið þá einkunn af hálfu undirritaðs, að verið væri að búa til "dollarabúð lífeyrisréttinda"  og var þar skírskotað til aðstæðna, sem sovéskur forréttindaaðall bjó við með aðgangi að sérstökum dollarabúðum með lúxusvarning á boðstólum  sem ekki var að finna annars staðar.

Á Alþingi hefur komið til tals að breyta þessum eftirlaunalögum lítillega og hef ég jafnan lagst gegn því og lýst yfir að kæmi fram slík tillaga myndi ég koma með breytingartillögu um algert afnám laganna. Lýtaaðgerð - breytingar til að sýnast - eru nefnilega verri en ekkert.  Þær eru til þess eins að villa fólki sýn. Á Alþingi hefur til þessa ekki verið meirihluti til að rífa lögin upp með rótum. Nú kann hins vegar sá meirihluti að hafa skapast enda gefin loforð um afnám laganna af hálfu annars stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, fyrir síðustu kosningar. Frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur afnemur ekki þau réttindi sem þegar hafa myndast með eftirlaunalögunum en myndi hins vegar verða til þess að koma í veg fyrir frekari eignamyndun á grundvelli þeirra

Með því að leggja frumvarp sitt fram stígur Valgerður Bjarnadóttir skref sem ég tel vera mjög lofsvert. Stundum hefur þingmálum verið hraðað í gegnum Alþingi. Þótt ég mæli ekki almennt með slíkum vinnubrögðum væri ég því  fylgjandi í þessu tilviki. Málið liggur nefnilega kristaltært fyrir. Allir ættu að gerþekkja málið enda auðskilið. Til er lífeyrissjóður sem stendur öllum hlutaðeigandi opinn, Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna. Hann skapar prýðileg réttindi en byggir ekki á þeirri fráleitu forrréttindahugsun sem Eftirlaunafrumvarpið var reist á.

Fréttabréf