Fara í efni

ÍSLENSKA „NO MATTER WHAT“?


Ég hef dvalist á erlendri grundu í rúma viku. Undarlegt hve nokkurra daga fjarvera gefur manni gestsauga við heimkomuna. Margt verður skýrara. Af lestri dagblaða sem út komu meðan á utanferð minni stóð að dæma hefur stóra umræðuefnið greinilega verið hvort íslenskir vinnustaðir eigi að verða tvítyngdir. Umræða um þetta efni var reyndar hafin þegar ég fór af landi brott en er greinilega engan veginn lokið. Varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, er ákafamaður um þetta efni og sé ég að hann hefur tekið undir með bankaforstjórum og fjölþjóðafjárfestum sem ólmir vilja fá að tala á ensku í vinnunni. Varaformaður Samfylkingarinnar segir þetta mikilvægt til að „ýta undir fjárfestingar á Íslandi,“ sbr. Fréttablaðið 28.sept.

Samfylkingin vill fá að tala ensku

Skyldi það vera í orkuauðlindunum eða í sjávarútvegi sem forysta Samfylkingarinnar telur að þurfi helst að greiða götu erlends kapitals? Hvað skyldi Samfylkingin annars heita á ensku? Eins gott að félagsmenn fari að tileinka sér það. Annars má Ágúst Ólafur vita að útlendum fjárfestum hefur oft verið prýðilega þjónað á enskri tungu. Viðskiptaráðuneytið í tíð þeirra Finns og Valgerðar Framsóknarráðherra gaf til dæmis út auglýsingabækling á ensku sem sendur var um víðan völl en hann bar titilinn Lowest Energy Prices !! in Europe for New Contracts (snarað á íslensku gæti titillinn hljómað svo: Bjóðum upp á lægsta raforkuverð í Evrópu fyrir nýja kaupendur! Sjá bækling HÉR). Það verður þó að segjast að þessi bæklingur var ekki slæmur fyrir það að vera á enskri tungu heldur vegna hins að verið var að falbjóða auðlindir Íslands eins og mér sýnist því miður þessi ríkisstjórn ætla að halda áfram að gera. Eða á ekki að fara að opna fyrir fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi?

Ef ekki á íslensku, þá á ensku...

Viðskiptablaðið er við sama heygarðshornið og Ágúst Ólafur og segir í leiðara nú um helgina, af meintu raunsæi, að þegar séu komnir margir útlendingar til starfa í landinu. Því fari fjarri að þeir tali allir íslensku. Hvað er  þá til ráða spyr leiðarahöfundur: „Við verðum að geta talað saman, hvort sem það er á ensku eða íslensku.“  Forsætisráðherra sýndi svo í verki tvítyngda tilburði þegar Sjónvarpið sýndi hann á fundi með Sjálfstæðismönnum fjalla um Evrópustefnu Samfylkingarinnar sem honum virtist fela í sér kröfu um inngöngu í ESB, „no matter what.“ RÚV textaði ekki, sennilega til að fylgja tískunni. En fyrir þá sem ekki kunna ensku þá skilst mér að no matter what þýði hvað sem það kostar.

Hvað þýðir hvort tveggja?

Við erum komin langan veg frá þeim tíma sem þjóðin sameinaðist í metnaði um að varðveita tunguna. Ríkisútvarpið var um áratugaskeið með fræðsluþætti um íslenskt mál og við stofnunina voru starfandi málfarsráðunautar. Ekki veit ég hvort svo er enn. Hitt þykist ég vita að slíkir ráðunautar eru ekki til ráðgjafar hjá flestum þeim sem láta móðan mása í síbylju ljósvakafjölmiðlanna daginn út og daginn inn. Það eru þessir aðilar, ekkert síður en skólakerfið og heimilin, sem skapa málkenndina með ungu kynslóðinni. Kannski ekkert undarlegt að ungur afgreiðslumaður í bakaríi skyldi hvá við þegar viðskiptavinur, sem staðið hafði frammi fyrir vali á tveimur vörutegundum, kvað upp úr með að hann vildi kaupa „hvort tveggja.“ – „Hvað áttu við,“ spurði starfsmaðurinn og skildi hvorki upp né niður. Þá barst hjálp frá samstarfsmanni, einnig ungum að árum. Hann sagðist vita hvað hvort tveggja þýddi. Það þýðir "bæði" sagði hann,  þ.e. báðar vörurnar sem viðskiptavinurinn hafði sýnt áhuga. Og síðan bætti hann við hughreystandi: "Ég veit hvað þetta þýðir af því þetta skeði nefnilega fyrir mig í morgun."

Varað við fordómum...

Umræðan um íslenskuna á ekki að snúast einvörðungu um aðkomumenn heldur um leiðir til að efla málkennd þjóðarinnar allrar. Hér þarf að horfa til skólakerfisins og spyrja hvort það sé að bregðast. Þetta má ekki gleymast í allri umræðunni um erlenda aðkomumenn. Leiðarahöfundar hafa af þessu tilefni (t.d. Fréttablaðið og DV) varað við fordómum í garð útlendinga og spurt hvort við viljum þá loka vinnustöðunum þar sem íslenskumælandi viðskiptavinum er ekki svarað á íslensku, ekki bara bakaríinu heldur líka elliheimilinu og leikskólanum.
Það er nauðsynlegt að spyrja þessarar spurningar og skal ég svara henni fyrir mitt leyti. Ekki vil ég skella í lás á þessum vinnustöðum. Það er hins vegar lífsnauðsyn fyrir framtíð íslenskrar tungu að hún sé kennd öllum þeim sem hér setjast að og að hún sé töluð á íslenskum vinnustöðum, ekki síst hinum opinberu, stofnunum fyrir aldraða og í skólum.

...en hvatt til raunsæis

Í öðru lagi leikur enginn vafi á því í mínum huga að þenslan í íslensku efnahagslífi er hættulega mikil, hún kallar á of mikið innstreymi erlends vinnuafls á of skömmum tíma. Þetta tel ég vera raunsætt mat og horfi þá til smæðar íslensks samfélags. Ég er sammála Sigurjóni M. Egilssyni í leiðara sem hann skrifaði í DV 20. september. Þar talar hann um hraðann á íslensku samfélagi sem orðið sé „í raun númeri, eða númerum of stórt.“  Leiðaranum að öðru leyti er ég hins vegar að sumu leyti ósammála en Sigurjón telur það vera mikið álitamál hvort hægt sé að „gera  kröfur um að útlendingar bjargi sér á íslensku, þegar fyrirtæki hér vilja nota ensku“.

Sjálfsagt mál að læra íslensku

Það er greinilegt að þessi umræða er tímabær. Jóhanna Sveinsdóttir höfundur fyrrnefnds leiðara í Viðskiptablaðinu telur þessa umræðu of seint fram komna: "Andmælarétturinn er í raun útrunninn og við erum í þeirri stöðu að þurfa að taka því að ekki tala allir íslensku sem búa á Íslandi." Spurningin snúist um það eitt hvernig eigi að bregðast við.
Auðvitað er ekki hægt að krefjast þess með lagaboði að allir þeir sem hér ganga um grundu tali íslensku. En er til of mikils mælst að þeir sem æskja þess að gerast íslenskir ríkisborgarar og taka að sér störf fyrir íslenskt samfélag læri það tungumál sem hér er talað? Mér þykir það vera fullkomlega eðlilegt að þeir geri það. Það sem meira er, ég held þeim þyki það einnig sjálfum vera sjálfsagt mál - og ekki bara sjálfsagt heldur bráðnauðsynlegt.