Fara í efni

OPIÐ BRÉF TIL GEIRS OG INGIBJARGAR

Birtist í Morgunblaðinu 18.09.07.
Nýlega ákvaðst þú, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem utanríkisráðherra lands okkar, að kalla heim eina Íslendinginn sem var starfandi í Írak á vegum hernámsliðsins, hálfum mánuði áður en viðkomandi átti að snúa heim. Það var gott framtak af þinni hálfu. En ekki nóg.
Innrásarliðið í Írak starfar nú í nafni NATÓ. Þú, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagðir að þú hefðir fyrir þitt leyti ekki kallað Íslendinginn heim ef þú hefðir ráðið, vegna samstöðu með NATÓ. Um það segist þið þó vera sammála: Að okkur beri að sýna samstöðu með NATÓ.
Þú lýstir því yfir nýlega Ingibjörg, að við ættum að axla ábyrgð innan bandalagsins, hætta að vera bara "þiggjendur" einsog þú kallaðir það (sbr. Mbl. 30. ágúst). Þetta botnaðir þú síðan með því að stinga upp á því að framlag Íslands til NATÓ ætti meðal annars að vera að lána landið okkar undir heræfingar aðildarríkja bandalagsins ( sbr. Blaðið 8. sept.). Þið eruð líka sammála, ef ég skil ykkur rétt, að Ísland eigi ekki að hafa her. Það samræmist ekki hefðum okkar og viðhorfum að bera vopn. Þarna eruð þið samstiga, forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann, sem jafnframt eruð oddvitar ykkar flokka. Opið bréf mitt til ykkar snýr að þessu.
Það sem vefst fyrir mér er siðferðið í afstöðu ykkar. Þið viljið vera í hernaðarbandalagi, hafið stutt árásarstríð og hersetu á vegum NATÓ (sbr. Afganistan) og þið hafið ekki gagnrýnt þær áherslubreytingar á stefnu og starfsháttum bandalagsins á undanförnum árum, sem byggjast á því m.a., að árásarstríð sé réttlætanlegt sem "fyrirbyggjandi aðgerð". Ykkar fyrirvari er sá einn að Íslendingar taki ekki sjálfir þátt í hernaðinum með beinum hætti.
Skömmu eftir árásina á Írak sagði ráðherra í þáverandi ríkisstjórn Íslands að hann þakkaði guði fyrir að hann þyrfti ekki að taka ákvörðun um að senda íslensk ungmenni í stríðið í Írak. Stríðsreksturinn styddi hann engu að síður: "Ég dáist hins vegar að mönnum eins og Tony Blair sem geta tekið slíkar ákvarðanir með yfirveguðum hætti." Þetta sagði talsmaður íslenskrar ríkisstjórnar í viðtali við DV 16. apríl árið 2003.
Látum liggja á milli hluta hversu yfirvegaðar ákvarðanir forsætisráðherra Breta hafi verið þegar hann sendi bresk ungmenni til árásar á Írak og síðan til að standa þar hernámsvaktina. Hitt hlýtur að vera hið mikla álitamál fyrir íslenska þjóð, hversu stórmannlegt það er að styðja hernaðarbandalag, ofbeldi og yfirgang á þess vegum; styðja að ungmenni annarra þjóða séu send inn á blóði drifinn árásarvígvöll, en skreyta síðan sjálfa sig fjöðrum friðardúfu?
Spurning mín til ykkar, oddvita þessarar ríkisstjórnar, sem bæði talið máli hernaðarbandalagsins NATÓ, er þessi: Á ekki þjóð sem ekki vill senda eigin ungmenni á vígvöllinn að vera sjálfri sér samkvæm gagnvart öllum ungmennum? Á hún ekki að standa utan hernaðarbandalags, sem stefnir ungu fólki til árása á aðrar þjóðir? Eða er réttlætanlegt að styðja hernaðarbandalag, sem fer með ungmenni á þann hátt sem við teljum óverjandi gagnvart okkar eigin fólki – okkar drengjum og okkar stúlkum?