Fara í efni

SAMBAND Á KOSTNAÐ SKATTBORGARANS

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kom fram í fréttum í dag til að segja þjóðinni að ríkisstjórnin væri að vinna af "fullri alvöru" að yfirtöku Íslendinga á Ratsjárstofnun og öðru sem snýr að vörnum Íslands. Staðreyndin er sú að þessi mál virðast öll unnin á handarbakinu, hver höndin uppá móti annarri í ríkisstjórinni, bæði varðandi stefnumótun og ekki síður þær gríðarlegu fjárskuldbindingar sem þjóðinni er ætlað að takast á herðar. Yfirlýsingar Geirs Hilmars, forsætisráðherra, um að málið sé í markvissum farvegi, hafa holan hljóm. Aðeins fáeinum dögum áður en Íslendingar taka yfir rekstur Ratsjárstofnunar er málið ófrágengið og nánast órætt. Þannig kemur fram í Fréttablaðinu í dag að loftvarnir með kerfi Ratsjárstofnunar nýtist aðeins á friðartímum! Í forsíðufrétt Fréttablaðsins er vísað í ummæli formanns utanríkisnefndar Alþingis: "Á hættutímum er mjög líklegt að bandarísk stjórnvöld myndu treysta á eigin ratsjárflugvélar frekar en íslenska ratsjárkerfið, þyrfti að grípa til rannsókna hér við land, segir Bjarni Benediktsson, formaður utanríkisnefndar Alþingis." Í fréttum RÚV í gær furðaði Bjarni sig á að málin skuli ekki liggja skýrar fyrir en raun ber vitni.

Ef þetta er nú svona, áhöld um að "varnarkerfið" nýtist á ófriðartímum, þ.e. þegar á því þarf að halda, er það þá réttlætanlegt að verja milljarði af peningum skattborgarans í þennan rekstur? Sama má segja um samkomulag um að norskar og hugsanlega danskar Natóherflugvélar komi hingað til lands reglulega á kostnað íslenskra skattborgara. Þessar heimsóknir verða aðeins á friðartímum! Og síðan er það Natóheræfingin í næstu viku. Hún er að hluta til á kostnað íslenskra skattborgara – litlar 45 milljónir þar! Hefðu þessir peningar ekki komið að góðum notum á Grensásdeild Landspítalans?

Skuldbindingar ríkisstjórnarinnar í "varnarmálum" nema árlega talsvert á annan milljarð króna. Ákvarðanir um þær hafa verið teknar án samráðs við Alþingi og án lagalegra heimilda. Talaði ekki Samfylkingin um það fyrir kosningar að efna þyrfti til "samræðu" um varnir Íslands í ljósi nýrrar stöðu í heimsmálunum – átti þetta ekki að heita samræðustjórnmál? Er það svo svona sem á að vinna? Án undirbúnings, án umræðu og án lagalegra heimilda? Það var fulltrúi VG í utanríkismálanefnd, Steingrímur J. Sigfússon, sem krafðist fundar í nefndinni og var þess sérstaklega óskað af hans hálfu, að utanríkisráherra mætti á fundinn. Sagt var að ráðherra væri í sumarfríi og gæti þess vegna ekki mætt. Ég leyfi mér að spyrja hvort ekki sé við hæfi að gera þriggja klukkustunda hlé á sumarfríi til að upplýsa Alþingi um framtíðarskuldbindingar ríkisstjórnarinnar í varnarmálum? Og er það ekki fundar virði að upplýsa Alþingi þegar verið er að undirgangast skuldbindingar fyrir hönd skattborgarans – skuldbindingar á hans kostnað - sem nema á annan milljarð króna? Við erum að tala um hærri upphæð en rennur til að fjármagna Háskólann á Akureyri svo dæmi sé tekið. Skyldi Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, láta svo lítið að mæta á fund fjárlaganefndar sem fulltrúi VG í nefndinni, Jón Bjarnason, alþingismaður hefur krafist að boðað verði til af þessu tilefni?

Varnarhagsmuni Íslands þarf að brjóta til mergjar í opinni lýðræðislegri umræðu. Spyrja þarf um hvað best þjóni hagsmunum Íslands í breyttri heimsmynd. Ríkisstjórnin verður líka að átta sig á því að ef í ljós kemur að hún er að henda fjármunum í blindni út um gluggann þá mun það ekki kæta skattgreiðendur. Samband Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem stofnað var til á vordögum, virðist ætla að verða á kostnað íslenskra skattborgara. Ég hef grun um að þetta kalli á talsverða umræðu þegar Alþingi kemur saman í haust.