Fara í efni

PÓLITÍSK REKSTRARSTJÓRN YFIR LEIFSSTÖÐ?

Birtist í Fréttablaðinu 26.07.07.
Þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var gerð að hlutafélagi var ég í hópi þeirra sem andæfði því; taldi að helsta flugstöð Íslendinga ætti að vera í eigu þjóðarinnar og á forræði hennar. Hún ætti að lúta eftirliti og aðhaldi frá Alþingi og heyra undir þau lög sem um opinberan rekstur gilda. Vildu menn aðkomu einkaaðila að rekstrinum væri nóg svigrúm til slíks innan þeirrar umgjarðar sem flughöfnin er. Mitt sjónarmið varð undir. Flugstöð Leifs Eiríkssonar var gerð að hlutafélagi og var ein röksemdin sú að eðlilegt væri að losa hana úr tengslum við pólitíkina. Upp væri runnin stund hinna faglegu sjónarmiða, eins og það var kallað, enda ætti rekstrarstjórn flugstöðvarinnar einvörðungu að huga að rekstrarlegum þáttum. Það væri hins vegar löggjafans að setja henni almennar reglur og ramma. Nú gerist það fyrir nokkrum dögum að boðað er til fundar í stjórn hlutafélagsins að undirlagi nýs utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Var þá skipt út í stjórninni og skipaðir tveir fyrrum þingmenn Samfylkingarinnar. Um þetta var utanríkisráðherrann spurður í Kastljósi Sjónvarpsins. Þetta er fullkomlega "eðlileg" ráðstöfun svaraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra: "Þetta er pólitísk stjórn. Þetta er fyrirtæki, það er skipað pólitískt í stjórnina. Þar voru inni í stjórninni, vegna þess að það heyrði undir utanríkisráðuneytið, 3 Framsóknarmenn og 2 Sjálfstæðismenn. Ég hafði enga aðkomu að stjórn Flugstöðvarinnar og vissi ekki um það sem þar væri verið að véla um og taldi ég fullkomlega eðlilegt að þar sætu einstaklingar sem ég væri í beinu sambandi við og ég treysti." Treysti til hvers? Að segja satt og rétt frá? Að færa ráðherranum völd og áhrif í rekstrarstjórninni? Þurfa menn að hafa flokksskírteini Samfylkingarinnar til að vera traustsins verðir? Ef Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur er alvara að þarna eigi að sitja pólitísk stjórn, er þá ekki rétt að sú stjórn endurspegli pólitísk hlutföll á þingi? Og ef þetta er meiningin, hvers vegna þá ekki færa starfsemina undir beinan ríkisrekstur að nýju? Væri það ekki betra en að búa við valdstjórnar- og bitlingapólitík Samfylkingarinnar sem hér er greinilega í uppsiglingu?

Ögmundur Jónasson,

höf. er þingflokksformaður VG