Fara í efni

AÐ SEGJA EITT EN FRAMKVÆMA ANNAÐ

Hvað vill ríkisstjórnin í vaxtamálum? Sem kunnugt er kvaðst Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra vera að senda bönkunum alvarleg skilaboð með ákvörðun sinni nú nýlega um að þrengja að lántakendum hjá Íbúðalánasjóði. Svo var á henni að skilja að takmarkaðri  aðgangur að lánsfé fyrir íbúðakaupendur og þyngri lánskjör þeim til handa myndu draga úr eftirspurn og þar með verðbólgu. Eða með öðrum orðum, því meira okur þeim mun minni þensla. Ekki stóð á viðbrögðum bankanna. Sama dag og félagsmálaráðherra sendi bönkunum skilaboðin birtist bankastjóri í fjölmiðlum þar sem hann tilkynnti sæll og brosandi að bankarnir myndu að öllum líkindum fljótlega hækka vexti sína á íbúðalánum.

Í grein í Morgunblaðinu sl. laugardag (sem einnig er að finna hér á síðunni) leitaðist ég við að færa rök fyrir því að okurstefnan væri bæði röng og ranglát. En bíðum nú við. Daginn eftir kemur  - eðli máls samkvæmt - sunnudagsmoggi inn um lúguna. Í honum var að finna flenniviðtal við sama ráðherra og áður hafði hvatt til þess að okrað yrði á íbúðakaupendum. Í þessu viðtali agnúast ráðherrann hins vegar út í hávaxtastefnuna í landinu. Sökudólgur var  Seðlabankinn sem keyrði vextina upp að yfirlögðu ráði! Því miður var í viðtalinu ekkert spurt út í þessar hróplegu mótsagnir í málflutningi ráðherrans.

Ef ríkisstjórninni er alvara að ná niður vöxtum, hvers vegna þá að stíga skref í gagnstæða átt með því að hvetja til okurs á húsnæðiskaupendum? Er það vegna þess að stjórnvöld treysti því að þau komist upp með að segja eitt en framkvæma annað?