Fara í efni

TÍMAMÓT Í BRETLANDI OG ÞVERSÖGNIN BJÖRGVIN G. SIGURÐSSON


Gordon Brown hefur nú tekið við af Tony Blair sem formaður Verkamannaflokksins í Bretlandi. Mér er það mjög minnisstætt þegar Tony Blair komst til valda sem forsætisráðherra Bretlands. Það var í kosningum hinn 1. maí árið 1997. Ég flutti þá ræðu á Ingólfstorgi í Reykjavík – á baráttudegi verkalýðsins - og bar ég  þá saman Ísland og Bretland þess tíma. Ég hafði fylgst nokkuð með Tony þessum Blair og þótti þar ekki vera komin nein happasending inn í breska Verkamannaflokkinn. Hér á landi ríkti Íhaldið og studdi sig þá stundina við Framsóknarflokkinn:

"...Íslenskt launafólk verður nú að spyrja sig í alvöru hvernig knúin verði fram breytt stefna.
Verður það gert í kjörklefanum?
Svarið er nei.
Að öðru óbreyttu er svarið nei.
Svarið er nei nema að launafólki, að okkur hafi áður tekist að setja stjórnmálalaflokkum landsins skilyrði, gera þeim það skiljanlegt, ekki aðeins í einum flokki heldur í öllum flokkum, að Íslandi verður ekki stjórnað á farsælan hátt nema í sátt við launafólk í landinu.
Svarið er nei vegna þess að í pólitíkkinni eru alltof margir tilbúnir að fórna stefnu fyrir völd.
Dæmigert fyrir þessa þróun eru bresku kosningarnar sem fara fram í dag. Undanfarna viku höfum við fengið fréttir af kosningabaráttunni í Bretlandi – um það hvernig flokkarnir, Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, reyna að líkja hver eftir öðrum, hvernig sveitir sérfræðinga eru á þönum yfir Atlantsála til að læra af amerískum stjórnmálum, hvernig eigi að reikna út hvað borgi sig að segja og um hvað borgi sig að þegja, -
hvað taki sig best út í bæklingum og á auglýsingaskiltum – og á endanum standa þær upp nákvæmlega eins,
báðar fylkingarnar,
báðir flokkarnir,
sama skattastefna,
sama velferðarleysið,
sama skipulagið,
sama einkavæðingin, forstjórahyggjan,
sama valdapólitíkkin.

Þessarar þróunar gætir einnig hér á landi.  Og þess vegna er það rangt að ímynda sér að stjórnmálalöflin ein á báti muni að öðru óbreyttu beina íslensku þjóðfélagi inn á brautir lýðræðis og jafnaðar – það mun ekkert breytast nema krafa um breytingar komi frá fólkinu, frá launafólki,
fyrr en verkalýðshreyfingin, samtök launafólks tala einum og kröftugum rómi.

Það er hjá samtökum launafólks sem krafan um stefnubreytingu verður að kvikna og það eru samtök launafólks sem verða að fylgja henni eftir. Verkalýðshreyfingin stendur á tímamótum. Hún stendur á tímamótum – einfaldlega vegna þess að þjóðfélagið allt stendur á tímamótum.
Peningahyggja og stjórnendahyggja ráða ferð nánast hvar sem litið er enda eru þær breytingar sem þjóðfélagið tekur í þeim anda. Og það er þess vegna sem ..."

Ræðan er að sjálfsögðu lengri en ég leitaði þessara orða vegna breytinga í forystu breska Verkamannaflokksins í dag. Allt gekk eftir sem þarna var spáð og í okkar samfélagi var fylgt svipaðri stefnu og Blair hinn breski gerði. Eitt er þó breytt. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar var vitni að breytingunum 1997 og einnig nú. Það er að vísu rétt að á báðum augnablikum klappaði hann fyrir því sem var að gerast, mátti reyndar varla vatni halda af hrifningu á Blair í útvarpsviðtölum. Nú klappar sami Björgvin fyrir Brown, hinum nýja leiðtoga og segir að undir hans stjórn muni Verkamannaflokkurinn færast til vinstri, "nær hefðbundnum jafnaðargildum." Það sé vel. Gordon Brown segir sjálfur að heilbrigðiskerfið verði að vera fyrir alla og að útrýma þurfi fátækt og flokkurinn þurfi að færa sig nær baráttumarkmiðum og gildum grasrótar og verkalýðshreyfingar.

Þessu heyrist mér Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingarmaður semsé fagna.
En er þá ekki svoldið skrítið að hann ásamt sínum flokki skuli afhenda íslenskum hægrimönnum - íslenska Íhaldsflokknum, fjármálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti, flokki sem hótar þar sömu einkavæðingastefnunni og Bretar segjast vera að hverfa frá?

Er þetta ekki svoldið mótsagnakennt?
Hvers vegna spyrja íslenskir fjölmiðlungar Björgvin G. Sigurðsson ekki þessarar spurningar? Hví að fagna skrefi til vinstri á sama tíma og hann sjálfur stígur til hægri?