Fara í efni

SVO ÓDÝR ER VINSTRIHREYFINGIN GRÆNT FRAMBOÐ EKKI

Birtist í Morgunblaðinu 26.05.07.
Nokkuð hefur verið rætt um valkosti um ríkisstjórnarmynstur eftir nýafstaðnar Alþingiskosningar og hafa fjölmiðlar, sér í lagi Morgunblaðið, verið iðnir við að koma "sök" á okkur í VG fyrir að "klúðra" málum. Hvert skyldi nú "klúðrið" vera? "Klúðrið" er að sjálfsögðu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en leitun er að fólki sem hefði valið þennan sambræðing sem fyrsta kost. Fremur hefðu menn viljað sjá stjórn til vinstri, VG, Samfylkingu og Framsókn með eða án Frjálslyndra eða þá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og VG. Nokkur orð um þetta.
Ef stjórnarandstaðan hefði fellt ríkisstjórnina tel ég næsta víst að Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn hefðu myndað ríkisstjórn. Ég tel að þessir flokkar hefðu náð saman þrátt fyrir ágreining um ýmis mikilvæg málefni. Á þetta reyndi hins vegar ekki af þeirri einföldu ástæðu að ríkisstjórnin hélt velli þótt naumt væri. Eftir kosningarnar gaf Geir H. Haarde forsætisráðherra það sterklega til kynna að ríkisstjórnin myndi sitja áfram og var því slegið upp í fjölmiðlum, þar á meðal á forsíðu Morgunblaðsins. Þótt ýmsir væru vantrúaðir á þetta vildu hinir sömu ekki heldur trúa hinu að hér kynnu að vera um vísvitandi blekkingar að ræða, hvorki af hálfu forsætisráðherra né fjölmiðla sem gefa sig út fyrir að flytja áreiðanlegar fréttir. Þessar aðstæður virtum við og fylgdum þar góðum hefðum með því að efna ekki til formlegra þreifinga á meðan stjórnarflokkarnir leiddu sín mál til lykta. Hefði framhald á samstarfi þeirra ekki gengið eftir er ljóst að umboðið til stjórnarmyndunar hefði komið til ráðstöfunar úr hendi forseta Íslands. Að vísu hefði Geir H. Haarde getað nálgast aðra flokka. Sú varð reyndar raunin og kaus hann að hefja viðræður við Samfylkingu í samkomulagi við formann þess flokks um að umboðinu yrði ekki skilað til Bessastaða.

Samfylkingin ber það fyrir sig að ekki hefði þýtt að reyna myndun ríkisstjórnar Samfylkingar, VG og Framsóknar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur látið í veðri vaka að orðsendingar hafi borist frá VG um að gagnvart þessum kosti væri tregða og að ljóst væri að erfitt kynni að reynast að mynda slíka ríkisstjórn. Tínd voru til ýmis gagnrýnin ummæli forsvarsmanna VG um Framsókn til að sýna fram á þetta. Vissulega á þetta við nokkur rök að styðjast. Framsóknarflokkurinn hefur farið með þau ráðuneyti á undanförnum árum sem mestur ágreiningur hefur verið um á milli ríkisstjórnar og VG: iðnaðarráðuneyti og viðskiptaráðuneyti, les Kárahnjúkar og einkavæðing. Samfylking tók ekki eindregna afstöðu til þessara miklu deilumála þannig að allt átti að geta fallið í ljúfa löð á milli hennar og Framsóknar. Einnig er á hitt að líta að Framsókn hafði í kosningabaráttunni hótað áframhaldandi stóriðjustefnu, nokkuð sem Samfylking var með loðna og óræða afstöðu til gagnstætt afdráttarlausri afstöðu VG. Er undarlegt að forsvarsmenn VG skuli við slíkar aðstæður vara við því að þungt kynni að reynast að ná saman? Þetta er einfaldlega nokkuð sem kallast raunsæi og flokkast það undir heiðarleika að vilja ræða opinskátt að menn hlaupa ekki faðm í faðm án skilyrða við slíkar aðstæður.

Hvað þá með tilboð VG til Framsóknar um að styðja minnihlutastjórn VG og Samfylkingarinnar? Það hefur verið gagnrýnt að hreyft skuli hafa verið við þeirri hugmynd opinberlega áður en hún fékk að berast Framsóknarflokknum. Vissulega kann það að hafa orkað tvímælis. Hins vegar er það svo að forsvarsmenn í Framsóknarflokknum höfðu sagt fyrir kosningar að ef flokkurinn fengi slæma útreið myndi hann ekki taka þátt í ríkisstjórn. Meðal annars í ljósi þessa komu fram vangavelturnar um það hvort Framsókn kynni að vilja veita minnihlutastjórn VG og S stuðning, þ.e. myndi verja slíka stjórn falli. Ég benti á það í útvarpsviðtali að í Framsókn væru frá gamalli tíð félagslegir þræðir og ef áhugi væri að skerpa þær áherslur væri þetta tækifæri til þess. Allt var þetta hugsað á vinsamlegum nótum.

Framsókn tók málið hins vegar óstinnt upp og talaði eins og flokkurinn væri kominn úr mikilli sigurgöngu og spurði hvað menn vildu eiginlega upp á dekk með tali um að flokkurinn sæti utan stjórnar og verði minnihlutastjórn félagshyggjufólks. Gleymd voru og grafin glóðvolg ummæli um að flokkurinn myndi hlusta á rödd kjósenda og vera utan stjórnar ef útkoman úr kosningunum yrði flokknum mjög óhagstæð. Jafnframt hugmyndum um minnihlutastjórn hömruðu forsvarsmenn VG á því öllum stundum að þrátt fyrir framangreinda annmarka hefði samstjórn með Framsóknarflokki ekki verið blásin út af borðinu.

Þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur síðan slitu samstarfi sínu buðu formenn VG og Framsóknarflokks að þeir myndu styðja það að formanni Samfylkingar yrði veitt umboð til myndunar ríkisstjórnar sem hallaði út í vinstri kantinn. Það tilboð þekktist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki enda þá komin í nána samvinnu við Sjálfstæðisflokk um myndun ríkisstjórnar.

Ég er þeirrar skoðunar að samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sé ávísun á veika ríkisstjórn en jafnframt mjög hægrisinnaða stjórn. Stjórnarmyndunarviðræðurnar og stjórnarsáttmálinn hafa enda fært okkur heim sanninn um að sú sé raunin. Ég tók rökum þeirra sem vildu afstýra þessu samstarfi og töldu betri kost fyrir íslenskt samfélag að mynda ríkisstjórn hinna raunverulegu póla í íslenskum stjórnmálum, VG og Sjálfstæðisflokks. Í því liggur meint "klúður" forsvarsmanna VG að þeir buðu sig ekki fala í kapphlaupi við Samfylkinguna um þetta samstarf og einnig þá í hinu að hafa ekki verið reiðubúnir að bjóða Framsóknarflokki stjórnarsamstarf án skilyrða. Svo ódýr er Vinstrihreyfingin – grænt framboð ekki.