Fara í efni

SAMFYLKINGIN KOKGLEYPTI HEILBRIGÐISSTEFNU SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS


Öllum þeim sem annt er um að velferðarþjónusta landsmanna verði áfram almannaþjónusta en ekki færð út á markaðstorgið brá í brún þegar megináhersla á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda Alþingiskosninganna var að færa heilbrigðiskerfið yfir í einkarekstur. Því miður varð minna um gagnrýna umræðu um þetta mikilvæga málefni en efni stóðu til.
Við stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var beðið í ofvæni eftir því hvað segði í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar um þetta efni.
Mörgum varð órótt þegar fréttir bárust af því að enginn málefnalegur ágreiningur væri í viðræðunum!
Annað hvort hafði þá gerst: Sjálfstæðisflokkurinn lagt áform sín um einkarekstursvæðingu á hilluna eða Samfylking sammála þessari stefnu.
Nú hefur komið í ljós að Samfylkingin kokgleypti stefnu Sjálfstæðisflokksins. Honum var afhent heilbrigðisráðuneytið og eftirfarandi sett á blað í sáttmála S og S.:
"Kostnaðargreina á heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum..."
Það er verst að Samfylkingin skyldi ekki hafa varað væntanlega kjósendur sína við því að flokkurinn væri sammála Sjálfstæðisflokknum í heilbrigðismálum - væri reiðubúinn að samþykkja stefnu hans í einu og öllu. Það hefði verið heiðarlegra. Sennilega hefði flokkurinn þá fengið heldur minna fylgi sem aftur skýrir hvers vegna kosið var að þegja um þetta efni.