Fara í efni

HVAÐ Á HÚN AÐ HEITA?


Það er næstum spaugilegt að fylgjast með tilraunum Samfylkingarmanna og þeirra stuðningsmanna Geirs H. Haarde í Sjálfstæðisflokknum sem eru fylgjandi stjórnarmyndunarviðræðum hans við Samfylkinguna að koma nafngiftinni Þingvallastjórn á krógann. Þannig skrifar Björgvin G. Sigurðsson stórkallalega grein í Blaðið í dag um það sem hann kallar Nýsköpun á Þingvöllum. Þar segir hann  „stórveldin“ í íslenskri pólitík vera að semja frið! Vandinn við svona söguskýringu er sá að þessir flokkar hafa verið í góðum friði undanfarin ár með örfáum undantekningum. Þannig voru Sjálfstæðisflokkur og Samfylking á einu máli um einkavæðingu bankanna, sölu Landssímans, Kárahnjúkavirkjun, innrásina í Afganistan svo nokkur heit átakamál frá síðustu árum séu nefnd. Ófriðurinn var á milli meirihlutans á þingi annars vegar og VG hins vegar sem stóð lýðræðisvaktina öðrum fremur.
Hvað um það, Björgvin er svolítið óheppinn að hinn bráðsnjalli teiknari Blaðsins, Halldór Baldursson, hefur greinilega fengið það verkefni að myndskreyta umrædda Þingvallastjórnargrein Björgvins og viti menn, þar er kominn í bakgrunninn heljarinnar Bónus grís sem minnir á að margir vilja kalla stjórnina BÓNUSSTJÓRNINA því hún eigi pólitískar ættir að rekja inn í það fyrirtæki.
Fjölmörg önnur heiti hafa skotið upp kollinum, þar á meðal VIÐEY ÖNNUR.
Davíð Oddssyni og Jóni Baldvin þætti hugsanlega vegið að höfundarrétti sínum í stjórnmálum með þeirri nafngift. En yrðu þeir ekki að bíta í það súra epli ef reyndin er sú, sem allt bendir til, að niðurlæging Alþýðuflokksins sem hófst í Viðey vorið 1991 sé að endurtaka sig hjá Samfylkingunni þessa vordaga anno 2007?