Fara í efni

FURÐUSKRIF MORGUNBLAÐSINS

Í Leiðara Morgunblaðsins á laugardag var fjallað um frammistöðu VG í nýafstöðnum kosningum og þá sérstaklega formanns flokksins, Steingríms J. Sigfússonar. Umræða um kosningabaráttuna, kosningaúrslitin og það sem gerðist í kjölfarið er góðra gjalda verð. Slík greining hefur að sumu leyti verið ágætlega gerð á síðum Morgunblaðsins. Það á þó ekki við um umræddan leiðara. Morgunblaðið verður eins og aðrir að gæta sanngirni og láta menn njóta sannmælis. Það er ekki gert í umræddum leiðara. Leiðarahöfundur setur gagnrýni sína fram í fimm liðum.

Í fyrsta lið segir að VG hafi tapað atkvæðum því flokkurinn hafi hætt að berjast og farið að trúa á skoðanakannanir. Þetta er rangt. VG hætti ekki að berjast og fór aldrei að trúa á skoðanakannanir. Það gerðu hins vegar andstæðingar okkar, þar á meðal Morgunblaðið, sem margeflt hóf upp andróður gegn flokknum, m.a. með hræðsluáróðri.

Í öðru lagi segir Morgunblaðið að VG hafi útilokað Framsókn frá hugsanlegu stjórnarsamstarfi. Þetta gerðum við aldrei. Tal leiðarahöfundar í þá veru að með því að vekja athygli á ósvífnum auglýsingum Framsóknar hafi verið svo að þeim flokki vegið að þar með hafi stjórnarsamstarf verið útilokað! Er þetta svaravert? Það sem hins vegar hefði gert stjórnarmyndunarviðræður flokkanna erfiða er gerólík stefna þessara flokka í atvinnu- og umhverfismálum.

Þá á það að hafa gert illmögulegt að mynda stjórn með aðild VG og Framsóknar að VG skyldi hafa dirfst að bjóða Framsókn upp á að styðja minnihlutastjórn. Þetta er fráleitt í ljósi þess að forsvarsfólk Framsóknarflokksins hafði sjálft lýst því yfir að flokkurinn myndi standa utan ríkisstjórnar ef hann byði afhroð í kosningunum. Sú varð raunin.

Í fjórða lagi er það sérstakur málsliður hjá leiðarhöfundi Morgunblaðsins að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi metið það svo að hún hafi ekki talið möguleika á vinstristjórn vegna afstöðu Steingríms J. Sigfússonar til Framsóknarflokksins. Þetta var rangt mat hjá ISG.

Í fimmta lagi segir leiðarahöfundur að sér sýnist að Steingrímur J. Sigfússon hafi ekki áttað sig á að umtalsverður stuðningur var innan Sjálfstæðisflokksins við samstjórn með Vinstri grænum. Hann hafi gert litla sem enga tilraun til að nýta þá möguleika. Hvað á leiðarahöfundur við? Það kom margoft fram af hálfu Steingríms J. Sigfússonar að samstjórn VG með Sjálfstæðisflokki væri ekki útilokuð nema síður væri. Er Morgunblaðið að segja að SJS hefði átt að krefjast fundar með Geir H. Haarde á meðan sá síðarnefndi sagði að svo liti út að framhald yrði á núverandi stjórnarsamstarfi? Var það ekki Geirs H. Haarde að sýna slíkt frumkvæði? Hefði ekki verið heiðarlegast af honum að skila stjórnarmyndunarumboði sínu inn til forseta Íslands þegar hann hafði gert upp við sig að ekki yrði framhald á stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks?

Undir lok leiðarans sýnir höfundur hans hvað raunverulega fyrir honum vakir, nefnilega að grafa undan formanni VG. Hann spyr því í fimmta lagi hvort ekki sé kominn tími á formanninn og nýtt fólk verði sett í brúna. Auðvitað kemur einhvern tímann að þessu en er ástæða til að refsa sérstaklega þeim forystumanni sem leitt hefur flokk sinn til meiri kosningasigurs en nokkur annar í þessum kosningum? Framsókn beið afhroð, Samfylking tapaði verulega, Frjálslyndir töpuðu fylgi. Sjálfstæðisflokkur jók hins vegar fylgi sitt en engan veginn eins mikið og VG. Vinstrihreyfingin grænt framboð jók fylgi sitt meira en nokkur annar flokkur og var í þeim skilningi sigurvegari kosninganna. Hefði flokkurinn ef til vill þurft að þrefalda fylgi sitt til að formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hlyti náð fyrir augum leiðarahöfunda Morgunblaðsins?

Ekki svo að skilja að við séum að leita eftir slíkri náð, síður en svo. Það er nefnilega þannig að Vinstrihreyfingin grænt framboð er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem er líklegur til að halda til streitu félagslegum vinstri áherslum. Er þetta hið raunverulega áhyggjuefni Morgunblaðsins?

Morgunblaðið virðist ekki mega til þess hugsa að yfirleitt sé til slíkur flokkur. Leiðarahöfundur vill að VG losi sig við allar vinstri áherslur með því að "taka skrefið til fulls og verða grænn flokkur án þess að skilgreina sig til vinstri sem slíkur. Með slíkri breytingu og nýrri forystu mundi græni flokkurinn skapa sér sterka vígstöðu í íslenzkum stjórnmálum".

Nú er það svo að VG hefur sérstöðu í íslenskum stjórnmálum sem grænn umhverfisverndarflokkur og erum við stolt af því mikilvæga hlutverki. En ef leiðarahöfundur Morgunblaðsins ímyndar sér eitt andartak að við munum leggja fyrir róða áherslur okkar á jöfnuð og félagslegt réttlæti þá fer hann villur vegar. Hitt er svo óneitanlega svolítið spaugilegt að Morgunblaðið skuli einmitt nú tala fyrir skiptum í forystu VG. Það hljómar óneitanlega ankannalega, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að vilja skipti í brúnni á því pólitíska skipinu sem aflaði betur en nokkurt annað í nýafstöðnum Alþingiskosningum! Er það ef til vill þess vegna sem Morgunblaðið vill skipta út?