Fara í efni

FAGRA ÍSLAND – DAGUR TVÖ

Birtist í Fréttablaðinu 30.05.07.
Allt var komið í háa loft strax á öðrum degi ríkisstjórnarinnar. Tilefnið voru Þjórsárverin og Norðlingaölduveita. Geir Hilmar segir ekkert um hana vera í stjórnarsáttmála. Ingibjörg Sólrún segist skilja stjórnarsáttmálann svo að Norðlingaölduveita sé út af borðinu, Össur á sama máli og Þórunn umhverfisráðherra segist styðja „sinn formann“. Það sem er óþægilegast við þessa umræðu á degi tvö í lífi Baugsstjórnarinnar er að um þetta hefur greinilega ekki verið rætt á viðræðufundum þeirra Ingibjargar Sólrúnar og Geirs Hilmars við myndun ríkisstjórnarinnar.
Sannast sagna held ég að fæstir hafi haft hugarflug til að ímynda sér að ráðist yrði í Norðlingaölduveitu með Samfylkinguna í ríkisstjórn með sitt Fagra Ísland upp á vasann. Þess vegna er það áhyggjuefni þegar nú kemur í ljós að málið hafi ekki einu sinni verið reifað! Eftir allar hinar miklu yfirlýsingar helgarinnar er ljóst að Norðlingaölduveita er út af borðinu.
Stóra málið er hins vegar neðri Þjórsá. Mun Samfylkingin standa vörð þar eða verður gefið eftir? Björg Eva Erlendsdóttir skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 26. maí: "Skýr stefna forystu Samfylkingarinnar um að virkja Þjórsá ekki meira að sinni getur komið í veg fyrir stórtjón á samfélagi og náttúru í sunnlenskum byggðum."  Nú er spurningin hvaða útgáfa af stefnu Samfylkingarinnar í virkjunarmálum verður ofan á: Fagra Ísland eða fagra Ísland? 
Nú er að vita hvað dagur þrjú og síðan dagur fjögur bera í skauti sér. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að bíða spenntur eftir næstu útspilum og þá hvaða stefna verður ofan á hjá Samfylkingunni. Íslands vegna held ég með Fagra Íslandi.