Fara í efni

VATNIÐ, FRELSIÐ OG BARÁTTUKRAFTURINN


Í umræðuþætti á Stöð 2 í kvöld minnti Kolbrún Halldórsdóttir, oddviti okkar Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi suður, á eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar þegar til framtíðar er litið: Eignarhald á vatni.
Ríkisstjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur knúðu í gegn síðastliðið haust lagaframvarp sem treystir einkaeignarhald á vatni. Um frumvarpið var hart deilt á Alþingi síðastliðið haust og stóð stjórnarandstaðan einhuga og sameinuð gegn ríkisstjórninni í þessu máli. Að lokum náðist um það samkomulag að gildistöku lagafrumvarpsins yrði frestað fram yfir kosningarnar  svo kjósendum gæfist kostur á að kjósa ríkisstjórnina út úr Stjórnarráðinu og stjórnarandstöðuna inn. Ef ríkisstjórnin verður felld í komandi kosningum og stjóranrandstaðan kemst til valda verður það fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að fella þessi lög úr gildi. Ný ríkisstjórn myndi endurskoða lagabálkinn með það fyrir augum að treysta réttindi almennings, þjóðarinnar. Þjóðin sameinuð á að eiga vatnið ekki útvaldir einstaklingar. Kolbrún minnti okkur á það mikilvæga tækifæri sem kosningarnar gæfu okkur í þessu mikilvæga máli. Það var gott að hlusta á áherslur Kolbrúnar Halldórsdóttur og orð í tíma töluð.

Katrín Jakobsdóttir, oddviti VG í Reykjavík norður átti orð kosningabaráttunnar til þessa í umræðuþætti í Kastljósi RÚV í gær. Umræðan fjallaði um menntamál. Fram kom hve víða sýn Katrín hefur á menntamálin eins og reyndar á þjóðmálin almennt. Hún talaði fyrir fjölbreytni í menntakerfinu, nýsköpun og framförum. Þorgerði Katrínu menntamálaráðherra hafði orðið tíðrætt í þættinum um hugtakið frelsi þegar Katrín Jakobsdóttir kvað upp úr með að hægri menn ættu ekki þetta hugtak, þeir ættu ekki hugtakið frelsi. Þetta varð held ég til þess að allir viðstaddir í fundarsal RÚV hugleiddu þau orð sem fallið höfðu og hver frambjóðendanna hefði verið öflugasti talsmaður fjölbreytninnar, nýsköpunarinnar og frelsisins. Ég held að ekki hafi verið hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það hafi verið Katrín Jakobsdóttir. Hún var málsvari frelsisins öllum öðrum fremur þótt hitt sé rétt hjá henni að enginn eigi frelsið. Það væri í sjálfu sér mótsögn að halda slíku fram.

Ekki verður það sagt um Guðfríði Lilju Grétarsdóttur að hún sé á nokkurn hátt mótsagnakennd! Hún er gegnheil, sjálfri sér samkvæm í öllu og frábær samstarfskona. Ég heimsótti nokkra vinnustaði í dag – suma með Guðfríði Lilju en saman skipum við tvö efstu sætin í Kraganum sem svo er nefndur. Ég fann hve mjög fólk hreifst af málflutningi Guðfríðar Lilju. Fólk finnur baráttukraft hennar og heilindi. Þess vegna er ég bjartsýnn á að kjósendur í Hafnarfirði, Kópavogi, Álftanesi, Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi – það er að segja kjósendur í Kraganum - veiti henni brautargengi í kosningunum 12. maí. Það verður enginn svikinn af því að kjósa Guðfríði Lilju Grétarsdóttur á þing!
HÉR er umræddur þáttur en í honum var einnig rætt um félagsmál þar sem ég tók þátt í umræðum.