Fara í efni

UM TRÚVERÐUGLEIKA STJÓRNMÁLAFRÆÐINGA

Nú reynir heldur betur á stjórnmálafræðingana og félagsfræðingana í háskólum landsins. Þeim verður tíðrætt um trúverðugleika stjórnmálamanna. Stjórnmálamönnum verður á hinn bóginn tíðrætt um trúverðugleika stjórnmálafræðinga. Hinir síðarnefndu skilgreina hina fyrrnefndu. Í RÚV skilgreindi Baldur Þórhallsson, kennari í HÍ, vinstri kantinn í stjórnmálum. VG stendur sig vel að hans mati vegna þess að Samfylkingin léði flokknum trúverðugleika. Þetta reyndi hann að styðja sögulegum skýringum frá síðustu öld. Mér er spurn: Hvernig væri að prófessorarnir færðu sig yfir á 21. öldina og hugleiddu að nýir tímar kynnu að vera upp runnir? Baldur á að láta sagnfræðingum eftir að skýra liðinn tíma í sögu Norðurlanda. Þar fyrir utan er söguskýring hans kolröng að því er ég fæ best séð. Hlutverk stjórnmálafræðinga hlýtur að vera að skoða það sem nú er og þá ekki síður það sem framundan er. Þeir verða að gæta sín á því að festa sig ekki í hinu liðna, túlka allt með hliðsjón af því sem liðið er. Þetta sýnist mér vera vandi Baldurs Þórhallssonar. Sagan tekur nefnilega breytingum. Lítill flokkur í gær getur orðið stór á morgun. Ekki gleyma því heldur að Alþýðuflokkurinn íslenski, sem  alltaf bisaðist við kalla sig norrænan jafnaðarmannaflokk, var alltaf minni en Alþýðubandalagið sem byggði á róttækari grunni eins og VG gerir nú í samanburði við Samfylkingu. Á þessu virtust þær heldur ekki átta sig fyllilega norrænu krataformennirnir sem hér voru í boði Samfylkingarinnar og buðu landsmönnum upp á endalausar söguskýringar. Ekki þóttu mér þær skýringar sannfærandi. 

Eitt lítið atriði til viðbótar. Baldur Þórhallsson virtist óskaplega kátur yfir því að formaður Samfylkingarinnar skyldi hafa agnúast út í VG. Þetta var að hans mati stefnubreyting sem gæti haft mikilvæga pólitíska þýðingu. Ég velti því fyrir mér hvort menn gætu fallið á prófi í stjórnmálafræði í HÍ ef menn skildu þetta ekki til fulls? Gæti verið að Baldri væri að fatast flugið í skýringum sínum og að óskhyggja Samfylkingarmanns réði för, ekki yfirveguð greining stjórnmálafræðings? Getur verið að velgengni VG byggist á eigin verðleikum en ekki vegna þess að flokkurinn hafi fengið pólitískt heilbrigðisvottorð frá Samfylkingunni?

Síðan mætti halda áfram með aðra spekúlanta úr stjórnmálafræðinni sem nú láta ljós sitt skína í fjölmiðlum. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor á Bifröst vildi gifta Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu í hádegisfréttum RÚV í dag. Þessi sló fréttastofa RÚV upp. Hvers vegna þessi ákafi RÚV í hjúskap þessara tveggja markaðssæknu stjórnmálaflokka er mér hulin ráðgáta.
Það væri framför ef stjórnmálafræðingar tækju þá ákvörðun að vera stjórnmálafræðingar en létu okkur stjórnmálamönnunum það eftir að vera stjórnmálamenn.