Fara í efni

MEIRIHLUTI ANDVÍGUR VIRKJUNUM Í ÞJÓRSÁ: HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ?


Könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Stöð 2 sýnir að meirihluti Sunnlendinga er andvígur virkjunum í syðri hluta Þjórsár. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar og mjög líklega vísbending um almennan vilja í þjóðfélaginu. Hvaða ályktanir er rétt að draga af þessu? Jú, nefnilega þær að öllum frekari ákvörðunum um virkjanir í Þjórsá væri rétt að fresta fram yfir kosningar og láta nýrri ríkisstjórn eftir alla frekari stefnumótun í sviði virkjana og stóriðjuframkvæmda.
Landsvirkjun er ekki ríki í ríkinu. Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar og á að lúta forræði hennar. Svona er það alla vega ennþá og vonandi um ókomin ár. Sjálfstæðisflokkurinn er með áform um að einkavæða Landsvirkjun og allan raforkugeirann. Tillaga þess efnis liggur fyrir landsfundi flokksins. Framsókn segist ekki vilja selja Landvirkjun en gæti sætt sig við formbreytingu! Hafið þið heyrt þennan áður?
Ef þessir flokkar ná áfram meirihluta í landinu þá mun þjóðin ekkert hafa lengur með það að gera hvaða ákvarðanir Landsvirkjun tekur. Hugsanlega yrði Landsvirkjun í eigu erlendra auðhringa, til dæmis Alcan eða Alcoa. Þætti mönnum það fýsilegt? Ekki okkur í VG !
Kosningarnar framundan fjalla um þetta. Þær eru mikið alvörumál.
HÉR er frétt um skoðanakönnun á Suðurlandi.