Fara í efni

BÆTUM KJÖRIN – BURT MEÐ FÁTÆKT !


Fyrirsögnin hér að ofan er yfirskrift yfirlýsingar sem Vinstrihreyfingin grænt framboð kynnti á fréttamannafundi í dag um forgangsverkefni sem býður komandi ríkisstjórnar fáum við í VG einhverju um ráðið. Ásamt mér kynntu áætlunina þau Álfheiður Ingadóttir, Gestur Svavarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir. Í inngangi skjalsins segir: "Misrétti hefur aukist í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Á sama tíma og margir hafa auðgast verulega og enn aðrir búa við góð lífskjör er vaxandi hópur settur hjá. Fátækt á ekki að líða í íslensku samfélagi og leggur Vinstrihreyfingin grænt framboð höfuðáherslu á að bæta og jafna kjörin og útrýma fátækt. Auka þarf ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og taka til gagngerrar endurskoðunar samspil almannatrygginga, lífeyrissjóða og skatta. Það er hlutverk velferðarsamfélagsins að tryggja jöfnuð. Þess vegna leggur Vinstrihreyfingin grænt framboð áherslu á gjaldfrjálsa velferðarþjónustu,  aðgengilega landsmönnum öllum."...
Í stefnuyfirlýsingu VG um aðgerðaáætlun til að bæta kjör lágtekjufólks og útrýma fátækt er að finna ýmsar athyglisverðar upplýsingar um hvernig gjaldtaka í almannaþjónustunni hefur aukist jafnt og þétt og tíundaðar eru leiðir til úrbóta. HÉR má nálgast skjalið.
Að loknum fréttamannafundinum opnaði Mireya Samper, formaður VG í Kópavogi, kosningamiðstöðina– Kragakaffi – formlega. Hjörleifur Valsson lék á fiðlu, listavel og hreif áheyrendur með sér. Síðan var kaffi og kleinur. Rífandi stemning enda fullt út úr dyrum eins og vera ber þegar VG opnar.